Jafnvel þó að afgangur af viðskiptajöfnuði á 3. fjórðungi þessa árs sé tæplega 15% minni en á sama tíma í fyrra, eða um 63 milljarðar króna í samanburði við 73,8 milljarða króna á 3. ársfjórðungi 2018, er viðskiptaafangurinn nú þegar orðinn meiri í ár á fyrstu níu mánuðum ársins en allt árið í fyrra.
„Þetta er áhugavert og ákveðið gleðiefni,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali við Morgunblaðið en bráðabirgðatölur Seðlabankans um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins komu út í gær.
Samanlagður afgangur af viðskiptajöfnuði er tæpur 121 milljarður króna á fyrstu 9 mánuðum ársins en samanlagður afgangur ársins 2018 í heild sinni nam 79,3 milljörðum króna. Að sögn Jóns Bjarka spilar fall WOW air inn í þessar tölur í formi sölu flugvéla félagsins á fyrsta fjórðungi, sem nam um 19 milljörðum króna. Sé sú tala tekin með í reikninginn er viðskiptaafgangurinn það sem af er þessu ári enn 22,5 milljörðum meiri en allt árið í fyrra.
Ef horft er til þess að loðnuvertíðin hafi brugðist og ferðamönnum hafi fækkað er staðan „býsna ásættanleg“ að sögn Jóns Bjarka. „Hluti af skýringunni er sá að þeir ferðamenn sem hingað koma eru að eyða meiru hver og einn en þeir gerðu í fyrra,“ segir hann aðspurður í Morgunblaðinu í dag.