Risastórt taílenskt fyrirtæki eignast 50% í Ægi

Ægir sjávarfang framleiðir meðal annars niðursoðna þorsklifur undir merkjum iCan.
Ægir sjávarfang framleiðir meðal annars niðursoðna þorsklifur undir merkjum iCan. Ljósmynd/Aðsend

Risastórt taílenskt sjávarafurðafyrirtæki, Thai Union, hefur eignast helmingshlut í niðursuðufyrirtækinu Ægi sjávarfangi í Grindavík. Mun Thai Union samhliða þessu skipa tvö af fjórum stjórnarsætum í fyrirtækinu.

Thai Union er risi á niðursuðumarkaðinum og framleiðir á annan milljarð niðursuðudósa á ári, en framleiðslan í tengslum við sjávarfang hér á landi er til samanburðar um 49 milljónir dósa. Félagið er meðal annars stórt í niðursuðuvörum í Frakklandi og framleiðir fimmtu hverju dós af niðursoðnum túnfisk sem seld er í heiminum.

Guðmundur P. Davíðsson, stjórnarformaður Ægis sjávarfangs, segir í samtali við mbl.is að með fjárfestingunni sé Ægir að fá auðveldara markaðsaðgengi fyrir framleiðsluna hér á landi út í heim. Þá segir hann að þetta muni mögulega leiða til aukinnar framleiðslu hér á landi auk þess sem skoðað verði með fleiri vörutegundir en fyrirtækið sýður niður í dag, en félagið sérhæfir sig í niðursoðinni þorsklifur undir merkjum iCan og Westfjords.

Hann segir Thai Union þekkja til framleiðslunnar hér á landi, en félagið keypti áður framleiðslu frá fyrirtæki í Hafnarfirði sem seld var undir merkjum King  Oscar og þá hafi Thai Union keypt umtalsvert af hráefni frá Íslandi í gegnum árin sem hafi verið nýtt í framleiðslu í Evrópu.

Guðmundur segir að Ísland hafi átt erfitt með að vera samkeppnishæft á niðursuðumarkaði þar sem launakostnaður hér sé umtalsvert hærri en t.d. í Austur-Evrópu. Hins vegar sé þetta að breytast með aukinni vélvæðingu og þannig verði staða Íslands sterkari út frá nálægð við hráefnið auk þess sem rafmagnskostnaður sé sanngjarn hér.

Ægir rekur sögu sína til ársins 1995, en þá hófst niðursuða í núverandi húsnæði félagsins. Var það upphaflega undir merkjum Neptunus og IceWest, en árið 2012 hóf félagið starfsemi undir nafni Ægis sjávarfangs.

Ægir er í samstarfi við niðursuðuverksmiðju HG í Hnífsdal og segir Guðmundur að félögin muni áfram vera í samstarfi með sölu- og markaðsmál, en í dag eru stöðugildi hjá þessum tveimur verksmiðjum um 30 talsins í framleiðslu- og markaðsmálum.

Í dag framleiða fyrirtækin tvö samtals um 16 milljón dósir á ári, en Guðmundur segir að á næsta ári sé áformað að auka framleiðsluna upp í 20 milljón dósir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK