Gjafakortin upp úr skúffu og inn í smáforritið YAY

Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri YAY.
Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri YAY.

Flestir ættu að þekkja vandamálið sem fylgir því að eiga gjafabréf sem gleymist ofan í skúffu og þegar það finnst er það útrunnið og ónothæft. Ari Steinarsson og Ragnar Árnason hafa fundið lausn við þessu en þeir eru búnir að rafvæða gjafabréfin og setja í nýtt smáforrit sem kallast YAY.

Ari segir í samtali við Morgunblaðið að hugmyndin eigi sér þó nokkurn aðdraganda og þeir Ragnar hafi gengið lengi með hana í maganum. Hann segir að sagan af því, hvernig hugmyndin fór loks á flug, sé hálflygileg. „Dag einn var Ragnar að bíða í röð eftir að kaupa ís í IKEA, og hitti þar Jón Þorgrím Stefánsson, tæknistjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Netapp. Ragnar sagði Jóni frá hugmyndinni í fljótu bragði þar sem þeir stóðu þarna saman í röðinni og honum leist svo vel á hugmyndina að hann bæði fjárfesti sjálfur í fyrirtækinu og dró fleiri fjárfesta að borðinu. Það er magnað hvernig þetta atvikaðist,“ segir Ari.

Öflugir fjárfestar

Fjárfestarnir sem komu að félaginu eru öflugir að sögn Ara. Þar er um að ræða Kjöl fjárfestingafélag og Omega fjárfestingafélag, sem eiga samtals rúmlega 50% í YAY. Frumkvöðlarnir, þeir Ari og Ragnar, eiga saman minnihluta.

Aðspurður segir Ari að þróun forritsins hafi kostað einhverja tugi milljóna króna.

Spurður nánar um virkni forritsins segir Ari að forritinu megi lýsa sem markaðstorgi fyrir gjafabréf. „Það þekkja allir þetta vandamál að eiga gjafabréf ofan í skúffu og nota það aldrei. Við höfum fundað með yfir 150 aðilum sem allir hafa tekið vel í að vera með, og nú þegar erum við komnir með 60 samstarfsaðila. Með appinu getum við minnt fólk á að nota gjafakortið áður en það rennur út til dæmis. Auk þess bjóðum við upp á að fólk geti keypt gjafabréf í einni búð, pakkað því í „gjafapappír“ og sent myndband með persónulegri kveðju.“

Ari segir að í appinu felist ákveðin neytendavernd, því boðið er upp á endursölumarkað í forritinu. „Ef ég hef ekki áhuga á gjafakortinu sem ég fæ, get ég skipt því út fyrir annað gjafabréf frá öðru fyrirtæki.“

Byrja með Nova

Um næstu helgi hefst markaðsherferð YAY fyrir alvöru. „Við ætlum að hefja vegferð okkar með einu öflugasta markaðsfyrirtæki landsins, farsímafyrirtækinu Nova, sem mun bjóða frí gjafabréf í gegnum ókeypis efni Nova og YAY.“

Spurður um langtímamarkmið fyrirtækisins segir Ari að stefnt sé á aðra markaði. „Við ætlum að prófa þetta hratt og örugglega hér á landi, og færa okkur svo út fyrir landsteinana.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK