Landsbankinn sýknaður af kröfum upp á tugi milljóna

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Landsbankann af kröfum Vestmannaeyjabæjar, Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Vinnslustöðvarinnar vegna yfirtöku bankans á öllum stofnfjárhlutum Sparisjóðs Vestmannaeyja árið 2015.

Málið snerist um það hvað mætti teljast hæfilegt endurgjald fyrir stofnfjárhluti við yfirtöku Landsbankans. Vestmannaeyjabær, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Vinnslustöðin telja að samkomulag sem gert var á sínum tíma um endurgjaldið hafi verið ósanngjarnt og að bankinn hafi auðgast með óréttmætum hætti á kostnað þeirra.

Enn fremur telja Vestmannaeyjabær, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Vinnslustöðin sig ekki hafa fengið fullt verð fyrir stofnfjárhluti sína í sparisjóðnum þegar þeir voru yfirteknir af bankanum við samruna hans og sjóðsins. Er þar byggt á mismun greiðslunnar fyrir stofnfjárhlutina og mats dómkvaddra matsmanna.

Vestmannaeyjabær krafðist þess að Landsbankinn greiddi sér tæpar 15,4 milljónir króna auk dráttarvaxta, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja að bankinn greiddi sér rúmar 21,6 milljónir auk vaxta og Vinnslustöðin fór fram á tæpar 7,6 milljónir.

Fram kemur í dómnum að bág fjárhagsstaða sparisjóðsins hafi verið á almannavitorði dagana áður en umrætt samkomulag var gert og Vestmannaeyjabæ, Lífeyrissjóði Vestmannaeyja og Vinnslustöðinni hefði mátt vera ljóst að þörf væri á snörum viðbrögðum, sem hefðu getað falist í því að leggja sjóðnum til nýtt fé, vildu þeir forða því að til formlegra aðgerða Fjármálaeftirlitsins kæmi.

Kemst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á óréttmæta, ósanngjarna eða óheiðarlega háttsemi Landsbankans og fyrir vikið verði ekki talið að sýnt hafi verið fram á að brotið hafi verið gegn góðum viðskiptaháttum eða með öðrum hætti gengið gegn ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK