Samkeppniseftirlitið samþykkti Krummafót

Frá Stykkishólmi.
Frá Stykkishólmi. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt að Krummafótur fái að reka verslun og veitingastað í húsnæði Ísborgar að Aðalgötu 25 í Stykkishólmi. Er heimildin tilkomin vegna samruna Haga og Olís.

Samrunanum voru sett skilyrði sem ætlað var að mæta skaðlegum áhrifum hans á samkeppni. Til þess að bregðast við skaðlegum áhrifum samrunans á sölu dagvara í Stykkishólmi, en samrunaaðilar voru þeir einu sem seldu dagvörur í bæjarfélaginu, buðust Hagar til þess að selja dagvöruhluta verslunar Olís að Aðalgötu 25 Stykkishólmi.

Eftir skoðun óháðs kunnáttumanns á hæfi Ísborgar ehf. samþykkti Samkeppniseftirlitið félagið sem kaupanda að þeim eignum Haga á dagvörumarkaði sem seldar voru vegna skilyrðanna, þ. á m. versluninni að Aðalgötu 25. Rekstur Ísborgar í versluninni hefur hins vegar ekki gengið sem skyldi og var versluninni lokað í september sl. Því var óhjákvæmilegt að leita leiða til þess að ná fram markmiðum þeirra skilyrða sem sett voru vegna og í tengslum við samruna Haga og Olís.

Ísborg hefur gert leigusamning við félagið Krummafót ehf. um rekstur verslunar og veitingastaðar í húsnæðinu. Forsvarsmenn Krummafótar hafa á undanförunum árum rekið veitingastaðina Skúrinn og Skúrinn Pizza Joint í Stykkishólmi. Óháður kunnáttumaður tók samninginn til skoðunar og komst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að Krummafótur teldist hæfur rekstraraðili. Samkeppniseftirlitið samþykkti síðan Krummafót sem nýjan rekstraraðila, sbr. bréf eftirlitsins til félagsins dags. 9. desember 2019.

Í ljósi ábendinga frá viðskiptavinum verslunarinnar í kjölfar sölunnar til Ísborgar og rekstrarerfiðleika þess félags beindi Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til nýrra rekstraraðila að huga að því að opnunartími og vöruframboð verslunarinnar yrði í samræmi við þarfir viðskiptavina í Stykkishólmi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Samkeppniseftirlitið hefur undir höndum mun uppistaðan í vöruúrvali verslunarinnar verða veitingar, dagvörur á þægindamarkaði, olíu- og bílavörur, vörur tengdar ferðamönnum, ásamt öðru.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK