Eimskip tapaði fyrir Hæstarétti

Eimskip tapaði málinu á öllum dómstigum.
Eimskip tapaði málinu á öllum dómstigum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar og héraðsdóms sem áður höfðu hafnað því að ógilda 50 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Fjármálaeftirlitið lagði á Eimskip vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti í mars 2017. Sektin stendur því og þarf Eimskip auk þess að greiða samtals 3,9 milljónir í málskostnað fyrir öllum þremur dómstigum.

Í málinu var deilt um hvort Eimskip hefði brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti þar sem fé­lagið hafi ekki sinnt skyldu til þess að birta all­ar þær inn­herja­upp­lýs­ing­ar eins fljótt og auðið er og á jafn­ræðis­grund­velli.

Snýr málið að því að Eim­skip hafi ekki birt taf­ar­laust upp­lýs­ing­ar um mjög bætta rekstr­araf­komu fé­lags­ins fyrsta árs­fjórðung 2016, en um var að ræða 66,5% betri af­komu en árið á und­an og taldi FME að um inn­herja­upp­lýs­ing­ar hafi verið að ræða.

Hæstiréttur veitti leyfi til áfrýjunar málsins á þeim grundvelli að dómurinn myndi hafa fordæmisgildi, en Eimskip taldi að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi á sviði verðbréfaviðskipta þegar komi að skýringu hugtaksins innherjaupplýsingar og hvenær upplýsingaskylda samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti verði virk.

Í dómi Hæstaréttar var, líkt og í dómum lægri dómstiga, vísað í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins, þar sem því hefði verið slegið föstu að einstaka atburður eða aðstæður í þrepaskiptu ferli gæti eitt og sér falið í sér nægjanlega tilgreindar upplýsingar við skilgreiningu innherjaupplýsinga. Töldu dómstólar að drög að árshlutareikningi gætu ótvírætt talist atburður í slíku þrepaskiptu ferli sem miði að samþykkt og birtingu hans, en árshlutareikningurinn var birtur 26. maí, en þær upplýsingar sem deilt er um hafi verið nægjanlega tilgreindar 20. maí og líklegar einar og sér til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa Eimskips. Því hafi tilkynningarskylda sem meginregla virkjast um leið og innherjaupplýsingarnar hafi myndast.

Féllst Hæstiréttur því á málflutning Fjármálaeftirlitsins og tók ekki undir kröfu Eimskips um að ógilda kröfuna og stendur því 50 milljóna stjórnvaldssektin.

Dómur Hæstaréttar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK