Icelandair tilkynnir breytta áætlun

Boeing MAX 8-flugvélin sem ber nafnið Mývatn er nú ásamt …
Boeing MAX 8-flugvélin sem ber nafnið Mývatn er nú ásamt fleiri vélum Icelandair af þessari tegund í geymslu erlendis. Félagið gerir ekki ráð fyrir að taka vélarnar í notkun aftur fyrr en í maí á næsta ári. Haraldur Jónasson/Hari

Icelandair gerir ekki ráð fyrir að taka Boeing 737 MAX-vélar sínar í notkun fyrr en í maí á næsta ári. Fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir að vélarnar yrðu komnar í gagnið í marsmánuði.

Ákvörðun félagsins er tekin í kjölfar þess að stjórn flugvélaframleiðandans Boeing ákvað á fundi sínum í gær að stöðva tímabundið alla framleiðslu Boeing 737 MAX-véla í verksmiðjum sínum í Renton í Washington-ríki.

Icelandair Group hefur 9 MAX-vélar í flota sínum sem stendur og til stendur að taka við fimm vélum af þeirri tegund til viðbótar á nýju ári.

„Við settum flugáætlunina fyrir næsta ár upp þannig að áhrif frekari kyrrsetningar MAX vélanna yrðu takmörkuð. Við erum því vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru, bæði hvað flotamálin varðar sem og aðra þjónustu félagsins við farþega,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningu. 

Eins og áður hefur verið tilkynnt um, hefur Icelandair Group í tvígang gert bráðabirgðasamkomulag við Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX vélanna. Áframhaldandi viðræður við Boeing um að fá heildartjón vegna kyrrsetningarinnar bætt standa enn yfir að því er segir í tilkynningu frá Icelandair. 

Leigja Boeing 737-800-vélar

Til þess að bregðast við hinni breyttu stöðu hefur Icelandair tekið tvær Boeing 737-800 NG-vélar á leigu og unnið er að því að tryggja þriðju vélina af þeirri tegund inn í flota félagsins.

Í tilkynningu frá Icelandair Group sem send var í gegnum Kauphöll Íslands fyrir opnun markaðarins í dag segir að félagið fylgist náið með framvindu mála hjá Boeing og þeirri yfirgripsmiklu vinnu sem nú á sér stað hjá alþjóðlegum flugmálayfirvöldum sem miði að því að tryggja örugga endurkomu Boeing 737 MAX-vélanna aftur á markað.

Í liðinni viku var greint frá því í ViðskiptaMogganum að Icelandair byggi sig nú undir að kyrrsetning MAX-vélanna myndi vara lengur en fram í mars eins og fyrri áætlanir hafa gert ráð fyrir. Félagið mun einnig skoða hvernig brugðist skuli við ef kyrrsetningin dregst lengra inn á árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK