7,6% færri um Keflavíkurflugvöll

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/​Hari

Gert er ráð fyrir því að farþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll á næsta ári verði tæplega 6,7 milljónir og fækki því um 7,6% frá árinu 2019.

Þetta kemur fram í farþegaspá Isavia fyrir árið 2020. Heildarfjöldi komufarþega verður 2,6 milljónir, samkvæmt spánni, sem er 1,4% samdráttur frá því á þessu ári.

Skiptifarþegum fækkar um fjórðung

Annað árið í röð fækkar skiptifarþegum mest. Þeir fara úr rétt rúmum tveimur milljónum í rúmlega 1,5 milljónir eða niður um 24,3%.

Þegar horft er til ársins 2019 er rétt að hafa í huga að fyrstu þrjá mánuðina var WOW air starfandi. Að frátöldum farþegum WOW air fækkar farþegum í heild um 1,9%. Komu og brottfararfarþegum fjölgar um 3,3% en skiptifarþegum fækkar um 16,2%.

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Farþegaspá Isavia fyrir Keflavíkurflugvöll er unnin í náinni samvinnu við notendur flugvallarins og við erum að gera ráð fyrir fækkun í heildarfjölda farþega sem fara mun um Keflavíkurflugvöll á næsta ári,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í tilkynningu.

„Því má ekki gleyma að stærsta hluta fækkunarinnar má rekja til þess að WOW air var starfandi fyrstu þrjá mánuði ársins á síðasta ári. Það jákvæða er að þessi spá gerir ráð fyrir að komu- og brottfararfarþegum fækki einungis um rétt rúmt eitt prósent á komandi ári.“

mbl.is/Anna Sigríður

Íslenskum ferðalöngum fækkar

Í tengslum við farþegaspá hefur Isavia á síðustu árum einnig gefið út ferðamannaspá. Fyrstu niðurstöður benda til að íslenskum ferðalöngum fækki um á bilinu 7 til 8 prósent frá 2019 en á móti gæti fjöldi erlendra ferðamanna staðið nokkurn veginn í stað milli ára. Þetta er þó ekki endanleg niðurstaða.

„Ef þetta mat gengur eftir fækkar erlendum ferðamönnum ekki á Íslandi á nýju ári,“ segir Sveinbjörn í tilkynningunni. „Mikilvægt er að gæta að því að viðhalda þeim flugtengingum við umheiminn sem við höfum og fjölga þeim til framtíðar, enda er bein tenging milli þeirra og hagvaxtar í landinu. Það skilar sér til okkar allra.“

Áformað er að boða til opins fundar um farþegaspána á nýju ári þar sem fjallað verður nánar um horfurnar fyrir árið 2020.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK