Verð á hótelgistingu í Reykjavík lækkaði um 12,5% í fyrra

Úr afgreiðslunni á Grand hóteli í Reykjavík. Meðalverð á hótelgistingu …
Úr afgreiðslunni á Grand hóteli í Reykjavík. Meðalverð á hótelgistingu í Reykjavík lækkaði um 12,5% í fyrra, mælt í evrum. mbl.is/Eggert

Verð á hótelgistingu í Reykjavík var 15,8% lægra í desember 2019, mælt í evrum, en það var í sama mánuði árið 2018. Meðalverð lækkaði um 12,5% á milli áranna 2019 og 2018, en þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

„Verðið lækkaði á 12 mánaða grundvelli alla mánuði síðasta árs. Nokkuð skýrt mynstur var í verðlækkuninni. Þannig lá verðlækkunin á bilinu 12,2-17,2% frá maí og til áramóta. Verðlækkunin á fyrstu mánuðum ársins, þ.e. janúar til apríl lá hins vegar á bilinu 4,1-9,1%. Ástæðan fyrir mun meiri verðlækkun frá og með maí liggur eflaust að mestu leyti í brotthvarfi WOW air sem fór í þrot í lok mars,“ segir hagfræðideildin.

Í krónum mælt lækkaði verðið á hótelgistingu í Reykjavík um 3,3% á milli ára og skýrist minni verðlækkun í krónum af veikingu krónunnar á tímabilinu.

Lægri herbergjanýting sennileg ástæða

Hagfræðideild Landsbankans segir að líklega megi rekja verðlækkunina fyrst og fremst til lægri herbergjanýtingar, enda helst verðlagning í hótelrekstri að miklu leyti í hendur við nýtingu innan hvers árs.

„Á fyrstu árum uppsveiflunnar í ferðaþjónustu jókst herbergjanýtingin stöðugt milli ára allt til ársins 2017 og fylgdi þessu stöðug verðhækkun í evrum. Árið 2010 var herbergjanýting í Reykjavík 55% og fór hún hæst upp í 84,5% árið 2017. Á milli þessara tveggja tímapunkta hækkaði meðalverð á herbergi úr 73,8 evrum upp í 164,3 evrur. Á síðustu árum hefur nýtingahlutfallið gefið aðeins eftir og var 80,3% árið 2018 og 76,6% í fyrra. Verðið hefur fylgt þessari þróun eftir og lækkaði verðið milli áranna 2017 og 2018 en einnig milli 2018 og 2019,“ segir hagfræðideildin, sem lítur einnig út fyrir landsteinana og sér að í öllum höfuðborgum Norðurlandanna, fyrir utan Helsinki, hefur verð á gistingu lækkað í evrum talið á síðasta árinu.

„Verðlækkunin var mest í Reykjavík en þar á eftir kemur Osló með 5% lækkun og Stokkhólmur með 3,3% lækkun. Hækkunin í Helsinki nam 4,4%,“ segir í Hagsjánni, en verðið í Reykjavík er enn hæst, þrátt fyrir hlutfallslega mestu verðlækkunina á milli ára.

Hagsjá Landsbankans í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK