Athygli beinist að víravöndlum í MAX-vélunum

Kyrrsettar Boeing 737 MAX-flugvélar í eigu Southwest flugfélagsins í Bandaríkjunum.
Kyrrsettar Boeing 737 MAX-flugvélar í eigu Southwest flugfélagsins í Bandaríkjunum. AFP

Farið hefur verið vandlega yfir alla þætti í Boeing MAX-vélunum undanfarna mánuði, bæði af fyrirtækinu sjálfu og bandarískum flugmálayfirvöldum. Unnið er að því að koma þotunum aftur í loftið eftir langa kyrrsetningu sem hefur verið kostnaðarsöm fyrir Boeing og mörg flugfélög. Ný vandamál hafa skotið upp kollinum við úttektirnar.

New York Times greinir frá því að við þessa ítarlegu skoðun hafi komið í ljós að mögulega séu til staðar fleiri gallar í hönnun vélanna en einungis MCAS-hugbúnaðurinn alræmdi, sem sagður er hafa orsakað tvö hörmuleg flugslys sem leiddu til kyrrsetningar vélanna snemma á síðasta ári.

Að sögn fjögurra heimildarmanna New York Times, þar af einum háttsettum verkfræðingi hjá Boeing, kom í ljós mögulegur vandi með rafmagnstengingarnar sem stýra stéli MAX-vélanna. Fyrirtækið skoðar nú hvort tveir víravöndlar (e. wiring bundles) sem liggja aftur í stélið liggi of þétt saman og hvort það gæti mögulega valdið skammhlaupi.

Heimildarmenn Times segja að skammhlaup á þessu svæði í vélinni geti mögulega leitt til hraps, bregðist flugmennirnir ekki við því með réttum hætti. Boeing vinnur nú að því að skoða hvort slíkt skammhlaup geti mögulega átt sér stað á flugi og hvort að þörf sé á því að skilja víravöndlana að í þeim 800 MAX-vélum sem þegar hafa verið byggðar.

Frá verksmiðju Boeing í Renton í Washington-ríki.
Frá verksmiðju Boeing í Renton í Washington-ríki. AFP

Í frétt New York Times segir að fyrirtækið telji að þurfi að grípa til lagfæringa sé það tiltölulega einföld aðgerð sem myndi bara taka flugvirkja eina eða tvær klukkustundir á hverja vél, en einnig segir í fréttinni að Boeing geti þurft að athuga hvort þetta vandamál sé einnig til staðar í 737 NG-þotunum, forvera MAX-vélanna. 6.800 slíkra véla eru á flugi um allan heim.

Eldingavarnir og þyrlar einnig til skoðunar

Þá kemur einnig fram að Boeing hafi nýlega látið bandarísk flugmálayfirvöld vita af framleiðsluvandamáli í MAX-vélunum sem geri hreyfla þotanna berskjaldaða fyrir eldingum. Boeing mun þó þegar hafa hafist handa við að lagfæra það mál.

Einnig mun fyrirtækið CFM International, sem framleiðir hreyfla MAX-vélanna fyrir Boeing, hafa látið bandarísk flugmálayfirvöld vita af mögulegum veikleika í þyrlum (e. rotor) hreyflanna. Flugmálayfirvöld telja það þó ekki krefjast sérstakra aðgerða að svo stöddu, annarra en að Boeing kanni málið og skoði eins margar MAX-vélar í þessu tilliti og hægt er áður en að þær fara aftur í loftið.

Ekki bara slæmar fréttir

Í umfjöllun New York Times eru ekki bara slæmar fréttir af þróun mála. Þar segir nefnilega að merki sjáist um að Boeing sé á réttri leið með að koma vélunum í loftið og að áætlanir um að MAX-vélar fljúgi um loftið á vormánuðum gætu enn staðist.

Heimsóknir starfsmanna frá evrópskum flugmálayfirvöldum til höfuðstöðva Boeing í Seattle í þessari viku, til þess að prófa nýja hugbúnaðinn í flughermi, eru sagðar merki þess að lagfæringar sem Boeing hafi þegar gert séu álitnar tilbúnar til mats. Þá er búist við því að bandarísk flugmálayfirvöld muni gefa grænt ljós á prufuflug MAX-véla, jafnvel í þessum mánuði. Þar þarf Boeing að standast ýtrustu kröfur um öryggi.

Frétt Times um málið birtist fyrir miðnætti í gær að bandarískum austurstrandartíma og hlutabréf í Boeing féllu ögn í verði við opnun markaða vestanhafs í morgun, en alls ekki mikið og hafa lækkað um 0,8% það sem af er degi.

Hlutabréf í Icelandair hafa lækkað um rúmlega 2,1% í viðskiptum í Kauphöllinni í dag, en hvort það tengist eitthvað þessum fréttaflutningi af MAX-vélunum skal ósagt látið, þar sem almennt séð var mikið um rauðar tölur á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag.

Frétt New York Times um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK