Öll félög nema Heimavellir lækkuðu í dag

Dagurinn var rauður í Kauphöll Íslands.
Dagurinn var rauður í Kauphöll Íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Dagurinn var rauður í Kauphöllinni og lækkaði markaðsvirði allra fyrirtækja sem þar eru skráð, nema Heimavalla, í viðskiptum dagsins.

Marel og Icelandair Group leiddu lækkanirnar, en hlutabréfaverð Marels lækkaði um 2,98% í 797 milljóna króna viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð Icelandair Group lækkaði um 2,64% í 152 milljóna króna viðskiptum.

Nýr stærsti hluthafi skýri mögulega ris Heimavalla

Hlutabréfaverð í leigufélaginu Heimavöllum hækkaði hins vegar töluvert, eða um 5,6% í dag. Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri félagsins, hafði tekið eftir því að Heimavellir væru eina félagið sem hreyfðist upp á við í dag, en kunni ekki á því miklar skýringar þegar blaðamaður hafði samband.

Hann benti þó á að nýjasta fregnin af félaginu væri tilkynning til Kauphallar um nýjan stærsta hluthafa félagsins, félagið Fredensborg ICE ehf., sem á nú 10,22% hlut í Heimavöllum. Sú barst á mánudag.

„Það er svona nýjasta fréttin af okkur, ég hugsa að það sé bara það sem er eitthvað að hreyfa við þessu. Það er ekkert annað sem ég hef tekið eftir. Þetta er náttúrlega aðili sem á eitt stærsta leigufélag í Skandinavíu,“ segir Arnar Gauti, en Fredensborg á mjög stóran hlut í félagi sem rekur 50.000 leiguíbúðir í Svíþjóð, Danmörku, Hollandi og Þýskalandi, auk þess sem þeir voru nýlega að kaupa leigufélag í Tékklandi sem á 40.000 leiguíbúðir.

„Það má segja að nú séu þau búin að setja punktinn á Ísland líka,“ segir Arnar Gauti og bætir við að markaðarins menn hafi kannski einhverjar væntingar því tengdar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK