Dvínandi áhugi á kísilverksmiðjunni

Verksmiðja United Silicon í Helguvík.
Verksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/RAX

Líkurnar á því að Arion banka takist að selja kísilverksmiðjuna í Helguvík hafa minnkað að undanförnu.

Þetta segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka.

Í afkomuviðvörun sem bankinn gaf út í gær kemur fram að óvissa sé á mörkuðum með sílikon, auk þess sem nokkrir framleiðendur hafa dregið úr framleiðslu eða lokað verksmiðjum. Ónýtt framleiðslugeta er því til staðar sem getur haft neikvæð áhrif á söluferli verksmiðjunnar.

Fyrir um ári höfðu helstu framleiðendur heims lýst yfir áhuga á að því að taka þátt í viðræðum um kaup á verksmiðjunni en sá áhugi hefur dvínað, aðallega vegna breyttra aðstæðna á erlendum mörkuðum, að sögn Haraldar Guðna. Bankinn hefur fyrir vikið fært verðmæti eignarinnar niður um um það bil helming en það var áður í kringum 5,5 milljarðar króna.

Markmið bankans sé að búa þannig um hnútana að verksmiðjan sé söluhæf. Hann segir bankann vonast til að selja hana til rekstraraðila sem hefur reynslu og þekkingu af rekstri kísilverksmiðju.

Fram kemur í afkomuviðvöruninni að Arion banki hagnaðist um einn milljarð á síðasta ári, sem er mun minna en árin á undan. Vandamálin í kringum kísilverksmiðjuna og endurskipulagning Valitors eiga mestan þátt í því.

Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúni.
Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Félög sem bankinn er með í söluferli hafa dregið niður afkomu bankans á síðustu fjórðungum. Við leggjum mikla áherslu á að auka arðsemi af reglulegum rekstri og í því sambandi er yfirlýst markmið bankans að ná um 10% arðsemi,“ segir Haraldur Guðni, sem tekur fram að rekstur bankans á fjórða ársfjórðungi síðasta árs hafi verið ágætur.

Hann segir að bæði Valitor og kísilverksmiðjan standi fyrir utan reglulega starfsemi bankans og séu félög til sölu. Til að styrkja reglulega stafsemi bankans hafi verið gerðar skipulagsbreytingar í lok september í fyrra og að stefna bankans í dag sé að draga úr áhættu í kringum stærri lánveitingar. Einnig segir hann rétt að benda á að bankinn hafi á ári hverju skilað hagnaði og eiginfjárhlutföll hans séu sterk.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK