„Við sjáum tækifæri í þessu“

Bréfberi.
Bréfberi. mbl.is/Ernir

„Við erum að bera út í öll hús sex daga vikunnar og þar á meðal fjölpóst. Við erum að sjálfsögðu reiðubúin að ræða við þá sem hafa verið í viðskiptum við Íslandspóst og sjá hvað við getum boðið þeim upp á í þessum efnum,“ segir Kristín Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Póstdreifingar, við mbl.is vegna frétta af því að Íslandspóstur hafi ákveðið að hætta að dreifa ónafnmerktum fjölpósti á suðvesturhorni landsins.

Forstjóri Íslandspósts, Birgir Jónsson, sagði í samtali við mbl.is í morgun að viðskiptalegur grundvöllur þess að dreifa fjölpósti á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbæ, Selfossi og Akranesi væri einfaldlega brostinn miðað við það módel sem fyrirtækið byggði á. Fjölpóstur hefði verið hugsaður sem viðbótarþjónusta með bréfpósti og verðlagður sem slíkur en með minnkandi bréfpósti væri Íslandspóstur nú að meðaltali kannski að dreifa slíkum pósti í 30% póstlúga í hverju póstnúmeri en fjölpósti í þær allar.

„Þannig að það er einfaldlega ekkert í þessu lengur fyrir okkur í okkar módeli. Síðan eru önnur fyrirtæki með önnur módel þar sem þetta gengur betur upp,“ sagði Birgir enn fremur. Kristín segir engan bilbug að finna á Póstdreifingu þegar að þjónustu við þá sem vilja nýta sér fjölpóst komi. Aðspurð segir hún fyrirtækið þannig eðli málsins samkvæmt sjá möguleg sóknarfæri í þessari breytingu hjá Íslandspósti.

„Við erum í talsvert öðruvísi dreifingu og erum að ganga í öll hús sex daga vikunnar. Þannig að fjölpósturinn fellur vel að okkar fyrirkomulagi,“ segir Katrín en Póstdreifing dreifir meðal annars bæði Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. „Þannig að við sjáum tækifæri í þessu og tilbúin að ræða við þá sem þarna detta út hjá Íslandspósti.“

Póstmiðstöðin ehf., móðurfélag Póstdreifingar, er að 51% hlut í eigu Árvakurs hf. sem rekur meðal annars mbl.is.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK