Hagnaður Össurar 8,5 milljarðar króna

Hagnaður Össurar nam 69 milljónum Bandaríkjadala, sem svarar til 8,5 milljarða króna, á síðasta ári samanborið við 80 milljónir dala árið á undan. Hagnaðurinn í fyrra var 10% af veltu.

Sala ársins 2019 nam 686 milljónum Bandaríkjadala (84 milljörðum íslenskra króna). Vöxtur í staðbundinni mynt nam 16% á árinu og innri vöxtur var 5%. Sala á fjórða ársfjórðungi nam 180 milljónum Bandaríkjadala (22 milljörðum íslenskra króna). Vöxtur í staðbundinni mynt nam 10% á fjórðungnum og innri vöxtur var 1%.

Innri vöxtur í stoðtækjum var 7% á árinu og 3% í spelkum og stuðningsvörum. Söluvöxtur var einna helst drifinn áfram af hátæknivörum félagsins, nýjum vörum og góðum vexti í nýmarkaðsríkjum. Innri vöxtur var 1% fyrir bæði stoðtæki og spelkur og stuðningsvörur á fjórðungnum.

EBITDA fyrir einskiptisliði ársins 2019 nam 150 milljónum Bandaríkjadala (18 milljörðum íslenskra króna) eða 22% af sölu. EBITDA-framlegð jókst vegna aukinnar sölu á hátæknivörum og verkefna um aukna hagkvæmni í rekstri en á móti komu fjárfestingar í sölu- og markaðsstarfsemi og áhrif af nýlegum fyrirtækjakaupum.

Árið 2017 tilkynnti Össur um verkefni til að auka hagkvæmni í rekstri á sviði framleiðslu, dreifingar og innkaupa með áætlaðan sparnað upp á 10 milljónir Bandaríkjadala (1,2 milljarða íslenskra króna) við árslok 2020. Ávinningur af verkefninu hafði jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins og ráðist hefur verið í ýmsar fjárfestingar til að ná markmiðum um aukna hagkvæmni í rekstri á árinu.

Hagnaður ársins nam 69 milljónum Bandaríkjadala (8,5 milljörðum íslenskra króna) og var 10% af veltu. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 18 milljónum Bandaríkjadala (2,2 milljörðum íslenskra króna) og var 10% af veltu.

Össur keypti þrjú fyrirtæki á síðasta ári. Sameiginleg ársvelta fyrirtækjanna nemur um 20 milljónum Bandaríkjadala (2,5 milljörðum íslenskra króna).

Össur keypti 4.784.631 eigin bréf í gegnum endurkaupaáætlun félagsins fyrir 30 milljónir Bandaríkjadala (3,7 milljarða íslenskra króna).

Á aðalfundi 2020 mun stjórn Össurar leggja til að félagið greiði DKK 0,15 í arð á hlut fyrir árið 2019, sem er um það bil 14% af hagnaði ársins 2019. Stjórnin mun einnig leggja til að hlutafé félagsins verði lækkað um 2.377.804 kr. og eftir lækkun verður nafnverð hlutafjár félagsins þá 423.000.000 kr.

Fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir 3-5% innri vexti, 21-23% EBITDA-framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 4-5% fjárfestingarhlutfalli og virku skattahlutfalli á bilinu 23-24%.

Jón Sigurðsson hefur gegnt starfi forstjóra Össurar um árabil.
Jón Sigurðsson hefur gegnt starfi forstjóra Össurar um árabil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í fréttatilkynningu: „Niðurstöður ársins eru góðar með 16% vöxt í staðbundinni mynt og 5% innri vöxt. Hátæknivörur seldust vel, þar á meðal nýi gervigreindarökklinn PROPRIO og nýja slitgigtarspelkan Unloader One X. Einnig náðist góður árangur í ytri vaxtarstefnu félagsins þar sem þrjú fyrirtæki voru keypt á síðasta ári og skrifað var undir samning um að kaupa stoðtækjaframleiðandann College Park Industries.“

Heild­ar­laun for­stjóra námu á síðasta ári 1.694 milljónum Banda­ríkja­dala eða 210 millj­ón­um króna miðað við gengi dagsins í dag. Það jafn­gild­ir tæpum 18 millj­ón­um króna á mánuði. Inni í því eru bæði laun, hluta­bréf og aðrar þókn­an­ir. 

Þetta eru lægri laun en árið á undan en þá námu heildarlaun forstjóra Össurar 2.062 Banda­ríkja­döl­um eða 248 millj­ón­um króna. 

Hægt er að skoða laun og þóknanir stjórnar Össurar á bls. 18 í ársskýrslu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK