100% viss að Viaplay bjóði í enska boltann

Enski boltinn nýtur mikilla vinsælda hér á landi.
Enski boltinn nýtur mikilla vinsælda hér á landi. AFP

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölu hjá Símanum, segir í samtali við ViðskiptaPúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans, að gera megi ráð fyrir því að skandinavíska streymisveitan Viaplay, sem Magnús segir að sé væntanleg inn á íslenska markaðinn í apríl nk., bjóði í sýningar á vinsælu íþróttaefni hér á landi.

„Við fylgjumst grannt með innkomu Viaplay á markaðinn hér. Þeir framleiða um 40 skandinavískar sjónvarpsseríur á ári, og voru til dæmis meðframleiðendur okkar að Stellu Blómkvist-sakamálaþáttunum. Viaplay eru líka með nokkrar rásir í línulegri dagskrá og þeir eru mjög stórir í sporti. Ég er 100% viss um að þeir muni berjast við okkur og aðra á markaðnum, um réttinn að sýningum á enska boltanum og Meistaradeildinni og fleiru,“ segir Magnús.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum.
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum. mbl.is/​Hari

Magnús segir að á þessu ári opnist fyrir tilboð í sýningarrétt á Meistaradeildinni í fótbolta, þar sem barist verði um réttinn. Hann segir aðspurður að Síminn muni verða þar á meðal bjóðenda. „Við höfum áhuga á öllum réttum sem losna. Þetta snýst svo bara um hvað þú býður hátt, og hvaða vöru þú treystir þér til að búa til úr efninu.“

Um samkeppnina við erlendar efnisveitur segir Magnús að það sé gremjulegt að íslensku efnisveiturnar, eins og Síminn og Sýn, keppi við erlenda aðila, sem starfi ekki endilega í sama lagaumhverfi. Til dæmis verði gerðar kröfur frá og með næstu áramótum um að 30% alls efnis á íslenskum streymisveitum verði evrópskt. „Ég sé ekki fyrir mér að Disney+, sem væntanleg er hingað til lands innan tíðar, uppfylli það skilyrði.“

Er eitthvað hægt að gera í þessum efnum?

„Það er yfirvalda að jafna þennan leik,“ segir Magnús og bætir við að það eina sem íslensku streymisveiturnar geti gert sé að skapa sér sérstöðu með íslensku efni.

Hlustaðu á ítarlegt spjall við Magnús með því að smella hér að ofan, eða í helstu hlaðvarpsveitum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK