Ásgeir: Lífskjarasamningar mýkt áhrif niðursveiflu

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri var mjög jákvæður í garð lífskjarasamninganna í kynningu peningastefnunefndar í morgun. Minntist hann tvisvar á að samningarnir væru ástæða þess að niðursveiflan núna hefði mýkri áhrif á heimili landsins.

Á fundinum var Ásgeir spurður út í hvort bankinn hefði gert greiningu á þeirri kjarabaráttu sem væri í gangi núna og sérstaklega minnst á baráttu Eflingar við Reykjavíkurborg. Ásgeir sagði að Seðlabankinn tæki ekki afstöðu í einstökum launadeilum, en bætti við að spár bankans gerðu ráð fyrir að lífskjarasamningarnir héldu nokkurn veginn.

Gera ráð fyrir töluverðri kaupmáttaraukningu næstu ár

Benti hann á að þrátt fyrir niðursveiflu núna væri gert ráð fyrir umtalsverðri kaupmáttaraukningu í samfélaginu í ár og næstu ár miðað við forsendur lífskjarasamninganna. „Er í rauninni töluvert mikil aukning kaupmáttar,“ sagði Ásgeir. „Það er gert ráð fyrir að kaupmáttur aukist yfir allt spátímabilið. Aukist um 2,8% á þessu ári, 3,4% á næsta og 4% árið 2022.“

Sagði hann þetta mjög sérstaka stöðu. „Þetta er í fyrsta skiptið á síðari tímum sem við sjáum niðursveiflu sem ekki kemur fram með lækkun kaupmáttar og ráðstöfunartekna. Sem er að koma mun mun léttar fram í fjárhag heimilanna. Ég ætla að vona að það gangi eftir.“

„Markmið þessara lífskjarasamninga hafa náðst mjög vel“

„Það er sérstakt að sjá kaupmátt heimilanna aukast í gegnum niðursveiflauna. Yfirleitt í íslenskum hagsveiflum hefur komið þessi svaka skellur á heimilin og þau hafa séð minni kaupmátt og verðbólguskelli sem hafa hækkað verðtryggðu lánin sem þau hafa haft. Þessi niðursveifla hefur enn sem komið er og samkvæmt spánni mun mýkri áhrif á heimili landsins. Það eru einhverju leyti áhrif af lífskjarasamningunum og auknum trúverðugleika sem við höfum náð fram.“

Sagði Ásgeir að lífskjarasamningarnir hefðu gengið mjög vel eftir og að ekki hefði komið fram nein verðbólga í kerfið og það hefði verið ástæða þess að bankinn hefðu getað lækkað vexti sína undanfarið. „Markmið þessara lífskjarasamninga hafa náðst mjög vel,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK