Jötunn vélar gjaldþrota

Gjaldþrotabeiðni Jötuns véla var skilað inn til Héraðsdóms Suðurlands í …
Gjaldþrotabeiðni Jötuns véla var skilað inn til Héraðsdóms Suðurlands í gær. Ljósmynd/Jötunn vélar

Jötunn vélar, fyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu á vélum og búnaði tengdum landbúnaði og verktökum, lagði í gær fram beiðni um að verða tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta staðfestir Finnbogi Magnússon framkvæmdastjóri fyrirtækisins í samtali við mbl.is. Þrjátíu og fimm manns störfuðu hjá fyrirtækinu.

Fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Selfossi og útibú á Akureyri og Egilsstöðum að auki, en um er að ræða eitt stærsta þjónustufyrirtækið í landbúnaði á Íslandi. Það var stofnað árið 2004 og nam velta fyrirtækisins 2,6 milljörðum króna í fyrra.

Finnbogi segir að það sé „fúlt“ að svona hafi farið og að þetta sé erfitt fyrir margt starfsfólk, sem hefur starfað lengi hjá fyrirtækinu.

„Við stóðum af okkur hrunið en auðvitað beit það okkur í hælinn núna þegar kreppti að. Það eru mjög fá fyrirtæki í innflutningi sem voru með kennitölu frá 2004,“ segir Finnbogi.

Finnbogi Magnússon, framkvæmdastjóri Jötuns véla.
Finnbogi Magnússon, framkvæmdastjóri Jötuns véla. Ljósmynd/Sigurður Jónsson

Samdráttur á vélamarkaði skýringin

Í tilkynningu frá Jötni vélum sem barst mbl.is segir að skýringin á gjaldþrotabeiðninni sé mikill samdráttur í vélasölu, sem leitt hafi til mikils tapreksturs fyrirtækisins á síðasta ári.

„Samdráttur á vélamarkaðnum hér á landi í fyrra var snarpur og nam um 30% sem kom mjög illa við okkar rekstur. Viðræður við banka og mögulega fjárfesta að undanförnu um endurskipulagningu fyrirtækisins hafa því miður ekki skilað árangri og því eigum við ekki annan kost en óska eftir gjaldþrotaskiptum. Fyrirtækið hefur á síðustu árum verið að vinna sig út úr skuldsetningu sem var afleiðing bankahrunsins hér á landi á sínum tíma og þoldi því ekki verulegt tap af rekstri sem við bættist í fyrra,“ er haft eftir Finnboga í tilkynningunni.

Þar er einnig haft eftir honum að vonast sé til að hægt verði vinna þannig úr málum á næstu vikum að starfsemin geti haldið áfram á nýjum grunni. Á þann hátt verði unnt að tryggja hagsmuni viðskiptavina Jötuns véla í íslenskum landbúnaði, sem og starfsmanna.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK