Hagnaður Landsbankans 18,2 milljarðar í fyrra

Landsbankinn hagnaðist um 18 milljarða á síðasta ári.
Landsbankinn hagnaðist um 18 milljarða á síðasta ári. mbl.is/Hjörtur

Landsbankinn hagnaðist um 18,2 milljarða í fyrra og var arðsemi eigin fjár 7,5% samanborið við 19,3 milljarða hagnað og 8,2% arðsemi eigin fjár árið áður.

Rekstrartekjur bankans drógust saman um 2,4 milljarða milli ára og voru 51,5 milljarðar á síðasta ári. Rekstrargjöld stóðu nánast í stað og voru 24 milljarðar á móti 23,9 milljörðum árið áður.

Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði milli ára og er nú 42,6% samanborið við 45,5% í fyrra. Heildareignir bankans eru 1.426 milljarðar og hækka um 100 milljarða milli ára. Var eiginfjárhlutfall hans 25,8% í árslok, samanborið við 24,9% í árslok 2018.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að útlán bankans hafi aukist um 7,1% eða 76 milljarða. Útlánaaukning ársins er aðallega vegna lána til einstaklinga. Í árslok 2019 voru innlán frá viðskiptavinum 708 milljarðar króna, samanborið við 693 milljarða króna í árslok 2018. Vanskilahlutfall útlána í árslok var 0,8%, en það er sama hlutfall og í árslok árið áður.

Hreinar vaxtatekjur námu 39,7 milljörðum króna árið 2019 samanborið við 40,8 milljarða króna árið á undan. Hreinar þjón­ustutekjur Landsbankans námu 8,2 milljörðum króna árið 2019 og standa í stað á milli ára. Aðrar rekstrartekjur námu 8,5 milljörðum króna á árinu 2019 samanborið við 3,6 milljarða króna á árinu 2018.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Hari

Hrein virðisbreyting er neikvæð hjá bankanum um 4,8 milljarða, en í fyrra var sama tala jákvæð um 1,3 milljarða. Mesta breytingin er í útlánum til fyrirtækja, en þar er virðisbreytingin neikvæð um 4,66 milljarða.

Leggja til 9,5 milljarða arðgreiðslu

Samkvæmt tilkynningunni mun bankaráð leggja til við aðalfund að greiddur verði út arður upp á 9,5 milljarða króna, eða sem nemur 52% af hagnaði ársins. Stærsti hluthafi bankans með 98,20% hlut er íslenska ríkið.

Haft er eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að bankinn muni áfram vinna að því að lækka rekstrarkostnað og að stærstu tækifærin þar liggi í áframhaldandi stöðlun og einföldun á sameiginlegum innviðum fjármálakerfisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK