Höskuldur vill í stjórn Skeljungs

Höskuldur H. Ólafsson var áður bankastjóri Arion banka og forstjóri …
Höskuldur H. Ólafsson var áður bankastjóri Arion banka og forstjóri Valitor. Ljósmynd/Aðsend

Höskuldur H. Ólafssson, fyrrverandi forstjóri Arion banka og Valitor, gefur kost á sér í stjórn Skeljungs, en tilnefningarnefnd félagsins skilaði skýrslu fyrir árið 2020 í gærkvöldi. Stjórnarformaður félagsins, Jens Meinhard Rasmussen, ætlar ekki að gefa kost á sér áfram auk stjórnarmannsins Ata Maria Bærentsen, en aðrir stjórnarmenn vilja halda sæti sínu.

Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir og varastjórnarformaður félagsins, Birna Ósk Einarsdóttir, stjórnarmaður og sölu- og þjónustustjóri Icelandair og Þórarinn Arnar Sævarsson, stjórnarmaður, fjárfestir og einn eiganda RE/MAX fasteignasölunnar, hafa setið í stjórninni og bjóða sig áfram fram.

Til viðbótar bjóða fimm sig fram í stjórnina. Það eru þau Dagný Halldórsdóttir, sem hefur meðal annars komið að stjórnun DH Samskipta, Pyngjunnar (nú SíminnPay, Neyðarlínunnar, Íslandssíma (nú Vodafone) og Skimu, Elín Jónsdóttir, stjórnarformaður Borgunar og áður framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, Höskuldur Ólafsson, Jón Gunnar Borgþórsson, sjálfstæður ráðgjafi og Már Wolfgang Mixa, aðstoðarprófessor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

Nefndin mælir með að þeir þrír stjórnarmenn sem séu nú í stjórninni og ætli að bjóða sig fram aftur verði áfram kosnir til starfa, en þar er sérstaklega horft til þess að halda þekkingu samfellu innan stjórnarinnar. Er Birna sérstaklega nefnd sem stjórnarmaður sem hafi setið lengi og búi yfir mikilli og víðtækri þekkingu sem gagnist stjórninni. Þá sé Jón Ásgeir með mikla reynslu úr viðskiptum og Þórarinn Arnar með reynslu af fasteignamarkaði. Þeir tveir eiga auk þess stóra hluti í félaginu.

Mælir nefndin sérstaklega með Elínu í stjórnina, enda hafi hún lögfræðilega þekkingu og reynslu sem vanti í stjórnina. Er hún því fyrst á blað, en einnig er horft til reynslu og þekkingar Dagnýjar úr tækni- og nýsköpunargeiranum.

Nefndin mælir því ekki með Höskuldi, Jóni eða Má, en í rökstuðningi um Höskuld segir að hann uppfylli kröfur til að vera í stjórninni og hafi reynslu af því að stýra stórum fyrirtækjum. Þessa reynslu sé hins vegar þegar að finna meðal annarra í stjórninni og því sé stjórnin með fimm fyrrnefndu sú sterkasta sem völ er á.

Hlutabréf í Skeljungi hafa hækkað um rúmlega 3% í um 340 milljón króna viðskiptum það sem af er degi í Kauphöllinni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK