Apple-vöruskortur yfirvofandi á Íslandi

Undirverktakar Apple í Kína hafa þurft að loka verksmiðjum sínum …
Undirverktakar Apple í Kína hafa þurft að loka verksmiðjum sínum vegna kórónuverunnar. AFP

Farið er að bera á vöruskorti á Apple-vörum á Íslandi, og sennilega víðar, vegna kórónuveirunnar lamað hefur daglegt líf og framleiðslu í Kína, helsta framleiðsluríkis vara frá Apple. Verksmiðjum fyrirtækisins Foxconn, sem sér um bróðurpart framleiðslunnar, var lokað fyrr í mánuðinum en á mánudag voru tvær verksmiðjur opnaðar að nýju þrátt fyrir að einungis 10% starfsfólks gæti mætt til vinnu.

Í samtali við mbl.is segir Guðmundur Ómarsson, eigandi Apple-búðarinnar Eldhafs á Akureyri, að verslunin hafi hamstrað vörur frá birgja sínum í Þýskalandi. „Við eigum eitthvað á lager en það er farið að bera á skorti hjá birgjanum,“ segir hann. Verst sé birgðastaðan á tölvum og AirPods Pro, nýju heyrnartólunum frá Apple, sem eru alveg uppseld hjá birgja.

„Svörin sem þeir [birgjarnir] fá frá Kína eru engin. Þetta er nær allt stopp og enginn veit neitt.“

Drífið ykkur að kaupa iPhone!

Í svipaðan streng tekur Guðni Rafn Eiríksson, framkvæmdastjóri Eplis, sem er eina Apple-umboðið á Íslandi og kaupir því vörur sínar beint frá fyrirtækinu. Hann segir vikuleg yfirlit yfir vörur sem séu á leið til landsins sýni að minna sé á leiðinni en menn eru vanir og ljóst að lokun kínverskra verksmiðja sé þegar farin að hafa áhrif.

„Það er yfirleitt þannig hjá þessum fyrirtækjum [í Kína] að þau eiga ekki stóra lagera, heldur framleiða vöruna jafnóðum. Því er viðbúið að vörur klárist mjög hratt þegar framleiðslan er svona lítil,“ segir hann en bætir við að Apple hafi nýverið lokað öllum verslunum sínum í Kína vegna veirunnar og það minnki vitanlega eftirspurnina þar í landi.

„Við verðum að sjá hvað setur, en annars segi ég bara Drífið ykkur að kaupa iPhone áður en hann klárast,“ segir Guðni og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK