Breyttu rekstrargrunni án greiningar

Ekki er víst hvort starfsemi heldur áfram í Straumsvík.
Ekki er víst hvort starfsemi heldur áfram í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áratug eftir að gerð var grundvallar stefnubreyting í tilhögun raforkusölu Landsvirkjunar til orkufreks iðnaðar, að frumkvæði fyrirtækisins og með stuðningi stjórnvalda, hafa stjórnvöld ákveðið að láta gera úttekt á samkeppnishæfni greinarinnar. Hafði mbl.is eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra að slík úttekt hefði aldrei verið gerð áður. En nú þegar hefur eitt fyrirtæki, Rio Tinto Aluminium (RTA), ákveðið að hefja endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík (ISAL) og meta rekstrarhæfi þess.

Í tilkynningu sem barst fjölmiðlum á miðvikudag sagði Alf Barrios, forstjóri RTA, að álverið í Straumsvík væri óarðbært og „ekki samkeppnishæft í krefjandi markaðsaðstæðum vegna hás raforkukostnaðar.“ Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur hins vegar ekki samþykkt né útilokað að það sé verðlagningin sem valdi usla, þar sem ISAL sé afhent orka á, að hans mati, samkeppnishæfu verði.

Breyttar rekstrarforsendur

Lengi miðaðist söluverð raforku til álversins við markaðsverð áls. Þannig myndi orkukostnaður álversins lækka í takt við álverð og þegar átti að endurnýja samninga um orkusölu til ISAL fyrir rúmum áratug stóð til að gera samninga um álverðstengt orkuverð, en tafðist að ganga frá þeim vegna efnahagshrunsins 2008. Á þessu urðu hins vegar skyndilegar breytingar við forstjóraskipti Landsvirkjunar, að því er segir í grein Ketils Sigurjónssonar, ráðgjafa á sviði orkumála og stofnanda Askja Energy Partners (AEP), frá 2017 á vef Vatnsiðnaðar. Þar segir hann að „með nýja samningnum 2010 hækkaði ekki aðeins sjálft raforkuverðið til RTA [ISAL], heldur er verðið í þessum nýja samningi Landsvirkjunar við RTA vegna Straumsvíkur ekki tengt álverði heldur bundið bandarískri neysluvísitölu.“ Vísar Ketill í greiningu AEP frá 2015 sem sýnir að ISAL greiddi um tíma hærra verð fyrir raforku en álver Fjarðaráls og Norðuráls, en þau álver voru enn með samninga sem bundnir voru álverði.

Stefnubreyting í samningagerð Landsvirkjunar var gerð til þess að draga úr álverðsáhættu fyrirtækisins og segir í ársskýrslu Landsvirkjunar frá í fyrra að frá nóvember 2019 verði áltengingu að fullu hætt. „Það mun leiða til þess að markaðsáhætta rekstrartekna vegna breytinga á álverði minnkar.“

Áhætta minnkuð

Matsfyrirtækið Moody‘s hefur tekið undir mikilvægi þessara sjónarmiða og var í skýrslu fyrirtækisins um Landsvirkjun árið 2015 bent á að meðal veikleika Landsvirkjunar væri álverðsáhætta og var því fagnað að verulegur árangur hafi náðst við að draga úr henni. Moody‘s taldi einnig til áhættuþátta háa skuldsetningu og fámennan hóp viðskiptavina, en orkufrekur iðnaður er stór kaupandi og selur Landsvirkjun til að mynda um 23% af allri orku sem fyrirtækið framleiðir til álversins í Straumsvík.

Taldi Moody‘s til jákvæðra þátta sterka stöðu á orkumarkaði, hagkvæma endurnýjanlega orku og stöðugt sjóðsstreymi. Var þó lítið rætt um möguleg áhrif þess að draga úr álversáhættu, með þeim verðhækkunum sem orðið hafa, á samkeppnishæfni mikilvægra viðskiptavina Landsvirkjunar.

Með stuðningi yfirvalda

Yfirvöld, sem fara með eignarhlut ríkisins, hafa stutt áform Landsvirkjunar um að breyta forsendum samninga um orkusölu allt frá stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Þessi stuðningur hefur verið með ýmsum hætti, en hluti þess hefur verið að skapa Landsvirkjun bætta samningsstöðu gagnvart álverunum. Herma heimildir Morgunblaðsins að ein birtingarmynd þess hafi verið að sýna raforkusölu til Bretlands um sæstreng (ICE-Link) áhuga og samþykkja í upphafi árs 2015 beiðni Landsnets og Landsvirkjunar um að verkefnið færi á verkefnalista Evrópusambandsins (PCI).

Sé það svo að raforkuverð til ISAL hafi dregið úr samkeppnishæfni þess og þar með stofnað rekstrinum í hættu má í einhverjum mæli segja að sú staða hafi skapast þegar stjórnvöld og Landsvirkjun lögðust á eitt til að bæta fjárhagsstoðir fyrirtækisins, líklega í von um að tryggja aukna arðsemi sem síðan myndi skila sér í ríkissjóð. Ekki lá fyrir greining á samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar á Íslandi og spurning hvort þjóðhagsleg langtímaáhrif í kjölfar breyttra rekstrarforsendna álveranna hafi yfirhöfuð verið metin.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. febrúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK