Þórdís segir raforkumarkaðinn óþroskaðan

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Eggert Jóhannesson

Raforkumarkaður á Íslandi er „ekki mjög þroskaður“ og eru mörg tækifæri fólgin í aukinni nýsköpun innan orkugeirans hérlendis, að sögn Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Við erum ekki með virkan raforkumarkað eða mikinn sveigjanleika með þá raforku sem kemur inn á markaðinn,“ sagði Þórdís í umræðum um stöðu álversins í Straumsvík, Rio Tinto, og Landsvirkjunar í útvarpsþættinum Sprengisandi nú rétt fyrir hádegi. 

Þórdís benti á að fimm fyrirtæki nýttu 85% af þeirri raforku sem Landsvirkjun framleiddi og þau gætu tekið þátt í að auka verðmæti íslenskrar raforku, fara í nýsköpun og minnka losun. 

Mikilvægasti viðskiptavinur Landsvirkjunar

Álverið í Straumsvík er eitt af þeim fyrirtækjum sem kaupir mesta orku af Landsvirkjun en nýverið var tilkynnt að mögulega þyrfti að loka álverinu. Ein af ástæðunum er hátt raforkuverð. 

Þórdís staðfestir að ef til lokunar álversins kæmi þá hefði það áhrif á Landsvirkjun. Álverið væri vinnustaður sem skipti miklu máli í efnahagslegu tilliti. 

„Álverið er einn stærsti og mikilvægasti viðskiptavinur Landsvirkjunar.“

Samningurinn á milli fyrirtækjanna tveggja væri þó þannig að bæði Landsvirkjun og Rio Tinto hefðu tryggt sig mjög vel. 

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. mbl.is/Hari

Ósjálfbær stefna ekki starfanna virði

Vegna mikils framboðs af ódýru áli frá Kína hefur verð á áli lækkað mikið. Þar er orkan ódýrari en sömuleiðis mun skaðlegri fyrir umhverfið og laun mun lægri. 

Landsvirkjun og Rio Tinto eiga nú í viðræðum um lækkað orkuverð fyrir fyrirtækið. Þórður Snær Júlíusson var einnig gestur í þættinum og tjáði hann þá skoðun sína að það væri vitlaust að keppa við Kínverja hvað varðar verð á orku og launakostnaði. Hann er því andsnúinn því að Rio Tinto fái lægra verð á orku en áður hafi verið samið um. 

„Tekjuhöggið fyrir Landsvirkjun er eitthvað sem Landsvirkjun myndi hafa gott svigrúm til að bregðast við.“

Þórður viðurkenndi þó að Álverið í Straumsvík væri mikilvægur vinnustaður en hann vann þar sjálfur á sínum tíma.

„Það breytir því ekki að við sem þjóð eigum ekki að reka þá stefnu að viðhalda ósjálfbærri stefnu bara til þess að halda þessum störfum inni í okkar hagkerfi.“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppnisforskot Íslands brátt á bak og burt

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, var þriðji gesturinn í þessum umræðum. Hann sagði mikilvægt að Landsvirkjun fengi að sjá um samningaviðræðurnar og mæti það hvort fyrirtækið vilji lækka verðið. 

„Landsvirkjun hefur það skýra hlutverk að hámarka afrakstur fyrirtækisins.“ 

Þorsteinn benti sömuleiðis á það að hrein orka væri orðin algengari í Evrópu og einungis 10-20 ár væru í að samkeppnisforskot Íslands á þeim markaði væri búið. Á sama tíma væri Kína farið að bjóða upp á ódýrara ál með því að drífa álver með óumhverfisvænni orku úr kolum. 

„Við þurfum á endanum að fá Kína til að vinna með okkur í loftslagsmálum,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK