Tap Sýnar 2,1 milljarður á fjórða ársfjórðungi

Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar. mbl.is/RAX

Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn tapaði 2,1 milljarði á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, en til samanburðar var hagnaður þess á sama tíma árið 2018 193 milljónir. Tekjur félagsins á ársfjórðungnum voru 4,9 milljarðar og lækkuðu um 9% frá því á sama tíma árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Kostnaður vegna sölu lækkaði á móti um 10% og var hann 3,1 milljarður á fjórða ársfjórðungi. Rekstarafkoma (EBITDA) nam 1,4 milljörðum, en niðurfærsla á viðskiptavild var 2,45 milljarðar og orsakaði það tap ársfjórðungsins.

Þegar horft er til ársins í heild var tapið 1,75 milljarðar, samanborið við 443 milljón króna hagnað árið 2018. Lækkuðu tekjur um 5% milli ára og voru 19,8 milljarðar í fyrra. Rekstrarafkoma ársins var 5,5 milljarðar.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir Heiðari Guðjónssyni, forstjóra Sýnar, að tapið ætti ekki að koma á óvart, en félagið tilkynnti fyrr í mánuðinum um niðurfærslu viðskiptavildarinnar. Segir hann að rekstrarútlit fyrir þetta ár sé bjart, en hann tekur meðal annars fram að miklar breytingar hafi verið gerðar á síðasta ári. Þannig hafi allri framkvæmdastjórninni verið skipt út fyrir utan tæknistjórann. Þá hafi verið gerðar breytingar sem eigi að hraða fyrir tæknibreytingum hjá fyrirtækinu.

Eins og greint var frá fyrr í kvöld undirbýr Sýn nú dómsmál gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Ingibjörgu Pálmadóttur, auk fyrirtækis Ingibjargar 365. Tel­ur Sýn að sam­keppnisákvæði í kaup­samn­ingi Sýn­ar við 365 hafi verið brot­in, til dæm­is að til­tekn­ir þætt­ir í starf­semi vef­miðils­ins fretta­bla­did.is sam­rým­ist ekki þeim skuld­bind­ing­um sem fram komi í þeim samn­ingi. Jón Ásgeir og Ingi­björg fengu bréf þess efn­is sent 17. des­em­ber síðastliðinn. 

365 hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið hafnar kröfum Sýnar og segist íhuga að gagnstefna félaginu vegna tjóns sem félagið telur sig hafa orðið fyrir vegna ásakana Sýnar.

Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Efnisorð: Vodafone
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK