Festi hagnaðist um tæpa 2,8 milljarða í fyrra

Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi.
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi. Ljósmynd/Aðsend

Festi hf. hagnaðist um tæpa 2,8 milljarða króna á síðasta ári. Ársreikningur félagsins, sem rekur N1, Krónuna, Elko og Bakkann vöruhótel, var birtur í kvöld.

Eggert Þór Kristófersson forstjóri félagsins segir reksturinn á fjórða ársfjórðungi 2019 hafa verið umfram væntingar og frábæran endi á fyrsta heila rekstrarári samstæðunnar, þrátt fyrir mikið umrót í efnahagslífinu.

„Krónan fékk 1. verðlaun í Íslensku ánægjuvoginni og ljóst er að Krónan er að skapa sér sterkari stöðu á matvörumarkaði ár frá ári. Rekstur N1 var í takt við væntingar þrátt fyrir samdrátt í ferðaþjónustu. Rekstur ELKO var undir væntingum framan af ári en góður viðsnúningur varð á fjórða ársfjórðungi 2019. Fjárhagsstaða Festi er mjög traust og sjóðstreymið er sterkt og lækkuðu skuldir samstæðunnar um 5 milljarða á árinu sem styrkir félagið í að vera áfram leiðandi á þeim mörkuðum sem við störfum til að skapa virði fyrir alla haghafa með hagskvæmni og traust að leiðarljósi,“ er haft eftir forstjóranum í tilkynningu félagsins.

EBITDA félagsins á síðasta ári, að undanskildum kostnaði við kaup á Hlekk, nam 7.743 m.kr. árið 2019 samanborið við 4.958 m.kr. árið 2018. Það skýrist af mestu að því að Elko, Krónan, Bakkinn og Festi fasteignir voru hluti af samstæðu Festi 4 mánuði 2018, en allt árið 2019.

Eigið fé samstæðunnar var 28.688 m.kr. og eiginfjárhlutfallið 35,3% um áramót, en eiginfjárhlutfallið var 33,4% í árslok 2018. Stjórn félagsins leggur til að tæplega 660 milljónir verði greiddar í arð til hluthafa á þessu ári vegna afkomu síðasta árs.

Ársreikningur Festi hf. 2019

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK