Aukin aðsókn í fjarheilbrigðisþjónustu

mbl.is/Hari

„Núna getum við raunverulega unnið saman við að hægja verulega á krísunni ef við notum tæknina. Það kemur oft eitthvað gott úr svona krísum og þá kannski það að fólk breyti um vinnubrögð og prufi eitthvað nýtt,“ segir Þorbjörg Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Köru Connect sem býður meðal annars upp á lausnir fyrir fjarheilbrigðisþjónustu.

Mikil spurn hefur verið eftir lausnum Köru Connect hérlendis undanfarið, þá sérstaklega síðustu viku eða svo, vegna kórónuveirunnar. Fyrirtækið hefur einnig verið að færa sig inn á danskan markað og þar hefur eftirspurnin sömuleiðis aukist en í Danmörku hafa tilmæli um að heilbrigðisstarfsmenn nýti sér fjarheilbrigðistækni verið gefin út. 

„Heilbrigðisstarfsmenn hafa þurft að fara í sóttkví hérlendis en það er náttúrulega gríðarlega mikilvægt að þessir starfsmenn séu heilbrigðir. Svo það takist þarf að grípa til þeirra ráða að takmarka líkur á að heilbrigðisstarfsmenn smitist og að þeir geti unnið í sóttkví. Sumir eru alveg heilbrigðir í sóttkví en gætu verið að hjálpa mjög mörgum á meðan því stendur, þá til dæmis í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu,“ segir Þorbjörg. 

Sérhæft fyrir viðkvæmar upplýsingar

Kara Connect býður upp á sérhæfðan hugbúnað fyrir aðila sem fást við viðkvæmar persónuupplýsingar eins og til dæmis heilbrigðisstofnanir.

„Kerfið er þá sérsniðið fyrir þeirra vinnukerfi og öryggi. Það þurfa allir að samþykkja og dagnóturnar þurfa að vera rétt skráðar og svo framvegis. Við erum svolítið sérstök með það vegna þess að venjuleg fundarforrit eins og Skype virka ekki í öryggissamhenginu, ef þú ert að fást við heilbrigðismál eða bara velferðarmál yfir höfuð.“

Fjarheilbrigðisþjónusta gagnast helst þegar kemur að viðtölum hjá læknum, sálfræðingum, ljósmæðrum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki. Þjónustan nýtist þá til dæmis ef skjólstæðingar hafa áhyggjur af einhverju, hafa einhverjar spurningar eða ef þeir þurfa á eftirfylgni að halda.

„Það eru mjög margir að sinna fólki sem er nú þegar veikt, óháð veirunni. Þegar mannamót eru takmörkuð getur heilbrigðisstarfsfólk líka sinnt því fólki sem og fólki sem er einangrað eða einmana. Rannsóknir á fjarheilbrigðisþjónustu sýna að hún sé jafn góð eða betri en venjuleg þjónusta. Þetta eru samt auðvitað breytingar fyrir þá sem hafa ekki kynnst fjarheilbrigðisþjónustu en fólk venst henni hratt og fagnar því hversu sveigjanleg hún er,“ segir Þorbjörg. 

Landspítali skoðar fjarheilbrigðisþjónustu

Kúnnahópur Köru Connect fer, eins og áður segir, stækkandi og setti Landspítalinn sig í samband við fyrirtækið í dag. 

„Þeir eru svona að kíkja á þetta. Svo var heilsugæslan Höfða að byrja í gær og býður hún þar af leiðandi upp á tíma hjá læknum, sálfræðingum og ljósmæðrum. Svo eru mjög margir sem voru inni í kerfinu sem eru að stækka við sig og bæta við. Fólk getur bara skráð sig á heimasíðunni okkar, þetta er bara í vafra svo þetta er rosa einfalt aðgengi.“

Spurð hvort Kara Connect anni þessari auknu eftirspurn segir Þorbjörg: „Það er mjög mikið að gera, það eru allir bara á hvolfi en vegna þess að það er einfalt að komast inn í þetta þá tekur ekki nema klukkutíma að koma stórum hópi sérfræðinga inn og svo hefja þeir bara sína vinnu. Nú erum við að verða fjögurra ára og við höfum frá upphafi horft á þetta þannig að þetta eigi að vera einfalt fyrir sérfræðinga og aðgengi auðvelt fyrir skjólstæðinga.“ 

Efnisorð: 6406140210
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK