Sterna Travel gjaldþrota

mbl.is/Helgi Bjarnason

„Það hafði í raun stefnt í þetta mjög lengi og er í raun óskiljanlegt að fyrirtækið hafi ekki farið í þrot fyrr,“ segir Heiðar Ásberg Atlason, hæstaréttarlögmaður hjá LOGOS sem skipaður hefur verið skiptastjóri þrotabús ferðaþjónustufyrirtækisins Sterna Travel. 

Fyrirtækið var lýst gjaldþrota 4. mars síðastliðinn og misstu þá á annan tug starfsmanna vinnuna. Í aðdraganda gjaldþrotsins var þó búið að segja stórum hluta starfsfólks upp. 

„Það voru margir starfsmenn á einhverjum tímapunkti en það var búið að fækka þeim all reglulega áður en félagið fór í þrot. Það var ekki alveg á hreinu hverjum hefði verið sagt upp nú þegar svo ég sendi öllum þeim sem ég fann á síðasta starfsmannalista uppsagnarbréf.“

Enn hægt að bóka ferðir

Enn er hægt að bóka ferðir hjá fyrirtækinu en Heiðar segir eðlilegar skýringar á því. 

 „Til þess að klára þetta, bæði til þess að koma til móts við farþegana og gæta hagsmuna búsins, var gert tímabundið samkomulag við þriðja aðila sem er í sambærilegum rekstri, ferðaþjónustufyrirtækið Reykjavík Sightseeing. Það fyrirtæki býður upp á nokkurn veginn sömu ferðir svo þeir sjá um að þjónusta farþega og þeir þjónusta bókunarvefinn tímabundið á meðan ég er að ná almennilega tökum á þessu.“

Gjaldþrot Sterna Travel mun því skipta þá sem bókað hafa ferðir hjá fyrirtækinu litlu máli. 

„Þeir fá í raun sömu ferð og þeir bókuðu, það er bara einhver annar sem keyrir þá. Það verður því eins lítil röskun og hægt er en það verður alltaf einhver röskun,“  segir Heiðar.

Eignirnar yfirveðsettar

Nú er unnið að því að skoða hvaða eignir séu í félaginu. „Félagið átti fjöldann allan af bæði litlum og stórum rútum en eignir félagsins eru allar yfirveðsettar og veðhafar kalla náttúrulega sínar eignir til baka. Það eru einhverjar eignir en þær eru ekki miklar eins og staðan er akkúrat núna,“ segir Heiðar. 

Eins og staðan er í dag lítur ekki út fyrir að háar launakröfur verði gerðar í búið. Það á þó eftir að koma betur í ljós eftir að kröfulýsingarfrestur rennur út.“

Spurður um ástæður gjaldþrotsins segir Heiðar:

„Það er of snemmt að segja það en það voru ógreiddar lífeyris- og skattakröfur og fleira sem höfðu verið ógreiddar í svolítinn tíma. Menn hafa verið að velta þessu vandamáli á undan sér það virðist vera að tengdur aðili hafi haldið þessu á floti með fjármögnun en reksturinn hafi ekki verið sjálfbær í svolítinn tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK