Spáir 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs

Hagfræðideild Landsbankans hefur gefið út spá fyrir næstu mánuði.
Hagfræðideild Landsbankans hefur gefið út spá fyrir næstu mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,3% milli mánaða og verðbólga fer úr 2,4% í 2,2% ef spá hagfræðideildar Landsbankans gengur eftir. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Hagstofan birtir marsmælingu vísitölu neysluverðs 27. mars.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,92% milli mánaða í febrúar sem var 0,52 prósentustigum meiri hækkun en spáð hafði verið. Munurinn skýrðist af því að föt, skór, reiknuð húsaleiga og tómstundir hækkuðu meira en talið var og þá hækkuðu flugfjargjöld til útlanda þvert á væntingar. 

Spáin núna um breytingu vísitölunnar milli mánaða er 0,1 prósentustigi lægri en í síðustu spá. Munurinn skýrist af því að hagfræðideildin hefur lækkað spá sína um breytingu milli mánaða í mars á fötum, skóm og flugfargjöldum til útlanda.

Flugfjargjöld hækkuðu um 8,8% milli mánaða síðast en gert er ráð fyrir því að flugfargjöld muni lítið breytast milli mánaða í þetta skiptið. Þá er talið að verðhækkun á fötum og skóm verði lítil í mars þar sem hún var mikil í febrúar eftir janúarútsölur.

Útlit fyrir að verðbóla hjaðni næstu mánuði

Bráðabirgðaspá hagfræðideildar Landsbankans gerir ráð fyrir því að vísitala neysluverð muni hækka um 0,3% í apríl, ekkert í maí og svo aftur um 0,3% í júní. Þannig verði ársverðbólga í júní 1,8%. 

Helstu óvissuþættir varðandi spárnar eru flugfargjöld til útlanda vegna nýlegs ferðabanns til Bandaríkjanna og óvissu um áætlunarflug, gengi krónunnar sem gæti breyst í ljósi minna innflæðis gjaldeyris vegna samdráttar í ferðaþjónustu og húsnæðisverð.

Þá er óvissa varðandi þróun útlánsvaxta eftir vaxtalækkun peningastefnunefndar Seðlabankans sem og varðandi heimsmarkaðsverð á olíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK