Lækka vexti í 1,75% - aukið svigrúm banka til lánveitinga

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1,75%.

Fjármálastöðugleikanefnd og peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafa fundað í vikunni. Útbreiðsla COVID-19-veirunnar og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi og annars staðar til að hefta framgang veirunnar hafa neikvæð áhrif á efnahagshorfur og fjármálaleg skilyrði. Nefndirnar hafa skoðað til hvaða mótvægisaðgerða þær geti gripið. Bæði þjóðarbúið og fjármálakerfið hér á landi eru vel í stakk búin til þess að takast á við áföll og eru nefndirnar tilbúnar til þess að beita þeim tækjum sem þær hafa yfir að ráða til þess að draga úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum þessa áfalls.

Slakað enn frekar á taumhaldi peningastefnunnar

„Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1,75%. Með þessari aðgerð er slakað enn frekar á taumhaldi peningastefnunnar í ljósi þess að efnahagshorfur hafa versnað enn meira í kjölfar aukinnar útbreiðslu COVID-19 veirunnar og þeirra umfangsmiklu aðgerða sem gripið hefur verið til hér á landi og annars staðar í heiminum til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar. Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn,“ segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Verður ekki hækkaður næstu 12 mánuði

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að aflétta 2% kröfu um sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki og verður hann því 0%. Reglur þessa efnis hafa verið samþykktar og taka gildi eftir birtingu í Stjórnartíðindum.

Nefndin mun ekki hækka sveiflujöfnunaraukann á næstu 12 mánuðum og verður hann því óbreyttur samkvæmt þeim reglum sem um hann gilda í a.m.k. tvö ár, fram á fyrsta ársfjórðung 2022.

Útbreiðsla COVID-19-veirunnar hefur haft mikil áhrif á samfélög, leitt til minnkandi efnahagsumsvifa og versnandi fjármálaskilyrða víða um heim. Óvissa ríkir um hversu mikil áhrifin verða og hversu lengi þau munu vara en ljóst er að efnahagshorfur á Íslandi hafa versnað til muna, a.m.k. til skamms tíma.

Eiginfjárstaða íslensku bankanna er sterk og vel umfram núverandi kröfur Seðlabankans. Bankakerfið er vel í stakk búið til að bregðast við áföllum. Mikilvægt er þó að draga úr neikvæðum áhrifum af auknum vanskilum og virðisrýrnun á miðlun lánsfjármagns.

Aflétting kröfu um sveiflujöfnunarauka mun auðvelda bankakerfinu að styðja við heimili og fyrirtæki með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem nemur að öðru óbreyttu allt að 350 ma.kr. eða um 12,5% af núverandi útlánasafni,“ segir í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands.

Verði notað fyrir heimili og fyrirtæki 

Meginmarkmið sveiflujöfnunaraukans er að styrkja viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja gagnvart sveiflutengdri áhættu, styrkja miðlun lánsfjármagns á samdráttartímum og milda þannig áhrif fjármálasveiflna á raunhagkerfið.

Á síðustu árum hefur aukinn viðbúnaður verið byggður upp með þau varúðarsjónarmið að leiðarljósi. Fjármálastöðugleikanefnd brýnir fyrir fjármálafyrirtækjum að þau taki tillit til þeirrar miklu óvissu sem uppi er í þjóðarbúskapnum við ákvörðun um útgreiðslu arðs og endurkaup á eigin hlutabréfum á komandi misserum.

Nefndin ætlast til þess að það svigrúm sem lækkun sveiflujöfnunaraukans skapar verði notað til að styðja við heimili og fyrirtæki. Fylgst verður vel með viðbrögðum bankakerfisins, stöðu heimila og fyrirtækja, og þeim fjármálalegu skilyrðum sem þeim eru búin á næstu misserum. Nefndin er reiðubúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi, segir í yfirlýsingu frá fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands.

Minnisblað um sveiflujöfnunarauka

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK