Sameinuð norræn flugsamsteypa til að leysa vandann

Eivind Roald leggur til að stofnuð verði norræn flugsanmsteypa sem …
Eivind Roald leggur til að stofnuð verði norræn flugsanmsteypa sem mun samræma rekstur flugfélaga á Norðurlöndunum. Ljósmynd/Samsett

Lausnin við vanda flugfélaga vegna kórónuveirunnar er ekki að veita þeim fjármuni án þess að gera kröfu um endurskipulagningu geirans. Nú er tími til þess að koma upp nýrri norrænni flugsamsteypu með aðild Norwegian, SAS, Finnair og Icelandair. Þetta segir Eivind Roald, ráðgjafi Altor Equity Partners og fyrrverandi aðstoðarforstjóri SAS, í aðsendri grein í Dagens Næringsliv. Roald leggur til að nýja samsteypan verði 51% í eigu Norðurlandanna en 49% í eigu fjárfesta.

Hin nýja samsteypa gæti búið yfir stórum flota en Icelandair býr yfir um 30 vélum, Norwegian um 150, Finnair um 70 og SAS um 160.

Mikilvægir innviðir

Hann lýsir undrun sinni á því að einhverjir tala fyrir því að norska ríkið festi kaup á hlutabréfum í Norwegian til þess að bjarga fyrirtækinu undir þeim formerkjum að tryggja innviði. „Eigendur og stjórn Norwegian, með dyggum stuðningi norska fjármálageirans, hafa meðvitað tekið áhættu með stórfelldri stækkun á síðustu árum, með þeim afleiðingum að fyrirtækið er mjög skuldsett og með litlar tekjur.“

Roald telur ljóst að flugsamgöngur séu mikilvægir innviðir sem þarf að varðveita, en jafnframt þurfi að huga að mikilvægi samkeppninnar. Báðir þessir þættir geri það að verkum að það þurfi að nálgast viðfangsefnið með nýjum hætti.

„Skammtímalausnin er líklega sú að veita öllum flugfélögunum – Norwegian, SAS og Widerøe – lánalínur, sem er einungis tímabundin aðstoð í erfiðri stöðu. Nýta þarf stöðuna til þess að finna kerfislæga langtímalausn fyrir allan flugrekstur, ekki bara í Noregi heldur á öllum Norðurlöndunum,“ segir Roald.

Skipulagt sem eignarhaldsfélag

Þá sé um að ræða fimm smærri ríki með fjögur flugfélög af svipaðri stærð, segir hann og skorar á norska stjórnmálamenn að nálgast stjórnmálamenn á Norðurlöndunum í þeim tilgangi að mynda einingu um nýja norræna flugsamsteypu.

„Félagið ætti að vera skipulagt sem eignarhaldsfélag – Nordic Airline Platform – NAP. Samsteypan ætti að vera stofnuð á sambærilegum grundvelli og IAG (International Airline Group – sem á meðal annars British Airways, Iberia og fleiri) og vera skráð í norrænar kauphallir. Í NAP ættu að vera: Icelandair, SAS, Finnair og Norwegian – að minnsta kosti hluti af Norwegian.“

Sér hann fyrir sér að 51% af hinni nýju samsteypu verði í eigu norrænu ríkjanna og 49% í eigu fjárfesta. Þá ættu flugfélögin áfram að vera rekin undir eigin merkjum með aðgreindan rekstur, en þeim vera beint að ákveðnum markhópum og áfangastöðum. Jafnframt ættu félögin að halda áfram að keppa hvert við annað innan Norðurlandanna.

„Innlimun Norwegian í svona samsteypu er mikilvæg, en til að samsetningin gangi eftir verður að endurskipuleggja fjárhagsstöðu Norwegian. Enginn vill taka með sér skuldirnar eða skyldur félagsins inn í nýtt félag. Það eru líklega margar leiðir til þess að ná þessu markmiði, en að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta gæti mögulega verið þvinguð leið.“

Áfram rekin undir eigin merkjum

Í ljósi þess að þrotabú eigi það til að selja eignir hæstbjóðanda leggur Roald til að NAP leggi áherslu á að kaupa merki Norwegian, smærri flota þess og ledningartíma félagsins við mikilvæga flugvelli í Evrópu. Telur hann að nýtt endurvakið Norwegian eigi að reka sem lággjaldaflugfélag í beinni samkeppni við Eurowings, Ryanair, Easyjet og Vueling.

„SAS, Finnair og Icelandair geta hvert fyrir sig lagt áherslu á flug bæði til Bandaríkjanna og Asíu, annaðhvort beint eða í gegnum Ísland. Einnig geta þau boðið fram ferðir sem eru betur sniðnar að viðskipta- og fyrsta farrými innanlands, innan Norðurlandanna og Evrópu,“ segir Roald í greininni.

Ríkin sem eiga hlut í NAP geta til lengri tíma ákveðið að selja sig út úr félaginu án þess að þau missi stjórn á grundvallarinnviðum sínum, fullyrðir Roald sem segir jafnframt samstarfið gera það að verkum að flugfélögin fái betri forsendur til þess að taka þátt í breytingum sem fylgja áherslum á umhverfisvænni samgöngur. Þar á meðal rafvæðingu flugsamgangna.

Meira virði saman

Forstjórinn fyrrverandi viðurkennir að þessi hugmynd hans hafi í för með sér talsvert af spurningum meðal annars um eignarhald ríkis í flugfélögum og ekki síst lagalegum álitaefnum er snúa að eignarhaldi, samkeppni. Hins vegar sé það svo að stjórnmálamenn og ríkjaleiðtogar sem eru færir um að takast á ivð neyðarástand ættu að hugsa út fyrir kassann, eins og Roald orðar það.

„Lausnin núna er ekki að gefa SAS eða Norwegian fjármuni – án þess að krefjast umfangsmikillar endurskipulagningar geirans alls. Við þurfum bæði Norwegian og SAS, en núna eru þau meira virði saman en hvort í sínu lagi. Það er á umbrotatímum sem nýsköpun verður til. Við verðum bara að þora að hugsa hugsunina.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK