Snörp lækkun á bensínverði

Frá bensínstöð Costco á síðasta ári.
Frá bensínstöð Costco á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensku olíufélögin hafa lækkað útsöluverð á bensíni og dísilolíu vegna mikillar lækkunar á heimsmarkaði. Á hádegi í dag hafði verðið í mars lækkað mest í Costco.

Þar hafði bensínlítrinn lækkað um 17 krónur og dísillítrinn um 16 krónur. Þar með kostar bensínið hjá Costco 180,90 krónur og dísilolían 179,90 krónur, að sögn Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Félagið hefur gagnrýnt fyrirtæki fyrir að skila ekki lækkun á heimsmarkaðsverði að fullu til íslenskra neytenda. Lækkunin hérlendis hefur ekki verið í samræmi við það sem sjá má í nágrannalöndunum, samkvæmt FÍB.

Næstlægasta verðið hérlendis er á bensínstöðvum Orkunnar við Dalveg í Kópavogi og við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. Þar kostar bensínlítrinn 196,80 krónur og dísillítrinn 194,80 krónur.

Frá síðustu mánaðamótum hefur listaverðið á bensíni hjá N1 lækkað um 12 krónur á lítra og um 10,90 krónur á lítra hjá Orkunni og ÓB. Hjá Atlantsolíu hefur bensínið farið niður um 9,90 krónur en algengasta verðið hjá Dælunni hefur ekkert breyst.

Heimsmarkaðsverðið á bensíni hefur lækkað yfir 50% líkt og hráolían á Norður-Evrópumarkaði.  Bensínlítrinn á heimsmarkaði, að teknu tilliti til gengisbreytinga íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal, hefur lækkað um 46%.

„Vegna tregðu flestra söluaðila á Íslandi vantar verulega upp á að eldsneytislækkunin skili sér eðlilega til neytenda. Til viðmiðunar þá hefur bensínlítrinn í Danmörku lækkað að meðaltali um 1,40 danskar krónur í mars. Umreiknað gerir þetta um 27 íslenskar krónur, miðað við meðalgengi dönsku krónunnar í mars. Meðalálagning íslensku olíufélaganna á hvern bensínlítra í mars er 10 krónum yfir álagningunni í febrúar,“ segir á síðu FÍB.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK