11% fækkun starfsfólks áður en áhrifa kórónuveirunnar gætti

Starfsfólki í ferðaþjónustu fækkaði umtalsvert hér á landi á síðasta …
Starfsfólki í ferðaþjónustu fækkaði umtalsvert hér á landi á síðasta ári, en það var áður en áhrifa kórónuveirunnar gætti. mbl.is/Árni Sæberg

Launþegum í einkennandi greinum ferðaþjónustu í janúar á þessu ári fækkaði um 11% samanborið við janúar árið á undan, en í heild voru þeir 23.300 í ár.  Nær samdrátturinn til allra atvinnugreina sem tengjast ferðaþjónustunni, en mest er þó fækkunin í farþegaflutningi með flugi þar sem fækkunin var 24%. Þetta kemur fram í skammtímahagvísum ferðaþjónustunnar í marsmánuði sem Hagstofan gefur út.

Tekjur af erlendum ferðamönnum á 4. ársfjórðungi 2019 lækkuðu um 14%, úr 103 milljörðum króna í 86 milljarða borið saman við sama ársfjórðung 2018. Tekjur af flugi lækkuðu um 8 milljarða, eða 23%, á meðan neysla ferðamanna lækkaði um 6,5 milljarða, eða 9%, á sama tímabili. Sé árið 2019 í heild borið saman við árið 2018 lækkuðu tekjur á milli ára af erlendum ferðamönnum um 10%, eða um 50 milljarða, og er hægt að rekja lunga þeirrar lækkunar til 43 milljarða króna samdráttar í tekjum af flugi á milli ára.

Velta einkennandi greina ferðaþjónustu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum í nóvember og desember 2019 lækkaði um 8% samanborið við sama tímabil árið 2018. Velta í farþegaflutningum með flugi nam rúmum 31 milljarði á tímabilinu sem er 5% minna en í nóvember og desember 2018. Velta gististaða nam rúmum 11,5 milljörðum og dróst saman um 14% samanborið við sama tímabil 2018.

Heildarvelta árið 2019 í einkennandi greinum ferðaþjónustu var 615,5 milljarðar, en hafði verið 682 milljarðar árið 2018. Nam samdrátturinn 60 milljörðum í veltu í farþegaflutningum milli landa með flugi.

Gistinóttum fækkaði um 3% í janúar í ár miðað við janúar í fyrra, eða úr 522 þúsund í 509 þúsund. Fjölgaði gistingum á hótelum um 8%, úr 321 þúsund í 346 þúsund, en gisting sem bókuð var í gegnum Airbnb og álíka vefsíður lækkaði um 41% eða úr 104 þúsund í 61 þúsund milli ára.

Bílaleigubílum fækkaði milli ára um 6% og voru þeir 22.668 í mars miðað við 24.038 á sama tíma árið áður. Þá dróst umferð á hringveginum nokkuð saman, en samkvæmt mælingum á 14 lykilstöðum var meðalumferð í febrúar 4% minni á Suðurlandi, 6% minni á Vesturlandi, 10% minni á Norðurlandi og 5% minni á Austurlandi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK