Engar uppsagnir hjá flugáhöfnum

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrr í morgun tilkynnti Icelandair um uppsagnir á 240 starfsmönnum, en það er um 5% af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins. Þá fara 92% í hlutastörf í takt við úrræði ríkisstjórnarinnar um mótframlag eftir því sem við á. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, staðfestir í samtali við mbl.is að engum í flugáhöfnum fyrirtækisins hafi verið sagt upp í þessum aðgerðum, en flugliðar fari í hlutastörf og að óskað sé eftir að flugmenn taki á sig 50% launaskerðingu. Þá var einnig tilkynnt um að stjórnendur og stjórn félagsins taki á sig tug prósenta launaskerðingu.

Bogi bendir á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gildi í tvo mánuði, en að talað hafi verið um að hægt sé að framlengja þær ef staðan krefjist þess. „Þetta er aðgerð til tveggja mánaða,“ segir hann um viðbrögð Icelandair í dag.

„Þurfum að vera kvik í okkar ákvarðanatöku“

Spurður hvort komið geti til frekari uppsagna segir hann að ekkert liggi fyrir um frekari aðgerðir. Það sé þó miðað við núverandi stöðu. „Ástandið er hins vegar kvikt og við þurfum að vera kvik í okkar ákvarðanatöku,“ segir hann og bætir við að fyrirtækið gæti áfram þurft að grípa til aðgerða eftir því sem aðstæður vegna útbreiðslu kórónuveirunnar þróist.

Uppsagnir Icelandair verða víða um fyrirtækið, en spurður hvort flugáhöfnum, þ.e. flugmönnum og flugliðum, verði sagt upp staðfestir Bogi að engum í þeim hópi verði sagt upp í þessum aðgerðum. Óskað hafi verið eftir því við flugáhafnir að þær taki sér tímabundið leyfi. Flugliðar munu svo fara í hlutastarf og óskað hefur verið eftir því að flugmenn taki á sig 50% launaskerðingu. Hann tekur þó fram að fyrirtækið hafi venjulega ráðið til sín mikið af sumarstarfsfólki, en áður hafi verið greint frá því að engir eða mjög fáir komi til fyrirtækisins í sumar.

„Það birtir aftur til“

„En við þurfum að hafa í huga að það birtir aftur til,“ segi Bogi og segir að fyrirtækið þurfi að tryggja að það hafi nægjanlegan sveigjanleika til að koma sterkt inn aftur þegar bókunarglugginn opni á ný.

Áður hafði fyrirtækið gefið út að spá þess gerði ráð fyrir að minnsta kosti 25% samdrætti á flugáætlun í sumar. Bogi segir að fyrirtækið geri að minnsta kosti ráð fyrir þeim samdrætti, en að algjörlega vonlaust sé að reyna að segja til um fjárhagsleg áhrif sem stendur. Hann segir ljóst að ferðamannaárið 2020 verði mjög erfitt, en að ekki sé enn tímabært að segja til um hvort háönn ársins, sumartíminn, detti alveg út í ár. „Á þessum tíma er erfitt að segja til hvenær bókunarglugginn opnar aftur. Við ætlum að vera tilbúin og hið opinbera líka,“ segir hann og vísar til markaðsátaks sem ríkisstjórnin hefur boðað til þegar aftur fer að birta til. „Við teljum að eftirspurnin muni koma aftur. Fólk vill áfram ferðast og Ísland verður áfram eftirsóttur áfangastaður.“

Einnig skorið niður hjá Air Iceland connect og Icelandair hotels

Icelandair rekur einnig Air Iceland connect sem sér um innanlandsflug. Bogi segir að fyrirtækið hafi skorið mikið niður undanfarið og að allir starfsmenn þess fari í 50% hlutastarf. Hjá Icelandair hotels verði nokkuð um uppsagnir, þrátt fyrir talsverðan niðurskurð áður.

Icelandair hotels hafa verið í söluferli undanfarið, en félagið Berjaya Land Berhad, sem er í eigu malasíska kaupsýslumannsins Vincent Tan, samdi um 75% kaup á hótelkeðjunni. Í febrúar var tilkynnt að öll skilyrði vegna kaupanna hefðu verið uppfyllt, en lokagreiðslum var frestað og eiga þær nú að vera greiddar 31. maí. Spurður hvort allar forsendur sölunnar standi enn segir Bogi svo vera og að engin breyting hafi orðið á sölunni.

Efnisorð: Icelandair
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK