Fyrrverandi framkvæmdastjóri Upphafs kærður

Millifærslur frá Vélsmiðju Hjalta Einarssonar (VHE) til Péturs Hannessonar og …
Millifærslur frá Vélsmiðju Hjalta Einarssonar (VHE) til Péturs Hannessonar og félags hans, fasteignafélagsins Upphafs, hafa verið afhentar embætti héraðssaksóknara, en þær eru taldar varpa ljósi á tap GAMMA-sjóðs á síðasta ári. mbl/Arnþór Birkisson

Núverandi stjórnendur Gamma hafa tilkynnt fyrrverandi framkvæmdastjóra fasteignafélagsins Upphafs til lögreglu, en fasteignafélagið var í eigu sjóðs sem Gamma stýrði. Eftir að Kvika banki yfirtók Gamma árið 2019 kom í ljós að eignir fasteignafélagsins voru ofmetnar og var virði þess lækkað úr 5,2 milljörðum í 40 milljónir. Töpuðu tryggingafélög, lífeyrissjóðir og fleiri fjárfestar stórum upphæðum eftir að hafa fjárfest í sjóðinum. Fjallað var um málið í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld.

Upphaf var að fullu í eigu fjárfestingasjóðsins Gamma: Novus og var jafnframt eina eign sjóðsins. Í Kveik í kvöld kom fram að fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, Pétur Hannesson, hafi fengið greitt 58 milljónir frá verktakafyrirtækinu Vélsmiðju Hjalta Einarssonar, VHE, en fyrirtækið hafði jafnframt fengið risastór verktakaverkefni frá Upphafi án útboðs.

Máni Atlason, núverandi framkvæmdastjóri Gamma staðfestir við mbl.is að tilkynnt hafi verið um atvik málsins til héraðssaksóknara, en hann segist treysta yfirvöldum til að vinna úr þeim upplýsingum með réttum hætti.

Fram kom í Kveik að greiðslurn­ar spanna tíma­bilið frá 2015 fram á mitt ár 2019. Sam­kvæmt gögn­un­um greiddi greiddi VHE Pétri eða fé­lagi hans, S3 Ráðgjöf, alls 58 millj­ón­ir króna í 21 greiðslu.

Í þættinum kom fram að upplýsingarnar um greiðslur til framkvæmdastjórans og ráðgjafafyrirtækis í hans eigu hafi ekki verið á vitorði stjórnarformanns Upphafs og sjóðstjóra Gamma: Novus. Þá hafi greiðslurnar verið greiddar á sama tíma og framkvæmdastjórinn var í fullu starfi hjá Upphafi og hafi að mestu einn séð um að taka ákvarðanir og gera samninga fyrir hönd Upphafs, meðal annars við verktaka.

Í tilkynningu sem Gamma sendi frá sér eftir að þátturinn var sýndur kom jafnframt fram að Gamma muni fyrir hönd þeirra fjárfesta sem komu að Gamma: Novus kanna rétt til bóta úr höndum þeirra sem hlut eiga. Þá kemur fram að framkvæmdastjórinn hafi látið af störfum hjá Upphafi í ársbyrjun 2019, áður en Kvika hafi yfirtekið félagið. Eftir yfirtökuna hafi skoðun leitt í ljós verulegt ofmat á raunframvindu verkefna samanborið við útlagðan framkvæmdakostnað. Jafnframt hafi samstarfi við VHE verið slitið, en félagið sá um tvö stærstu fasteignaverkefni Upphafs á þeim tíma.

Endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton var fengið til að yfirfara rekstur Gamma: Novus síðustu árin og liggja bráðabirgðaniðurstöður þeirrar rannsóknar fyrir og verða þær kynntar hagsmunaðilum á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK