Anna Rut og Magnús Már til Júpíters

Anna Rut Ágústsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður fjármála og rekstrar …
Anna Rut Ágústsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður fjármála og rekstrar hjá Júpíter og Magnús Már Leifsson hefur verið ráðinn yfirlögfræðingur félagsins. Ljósmynd/Aðsend/Samsett

Júpíter rekstrarfélag hefur ráðið til sín tvo nýja stjórnendur. Anna Rut Ágústsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður fjármála og rekstrar og Magnús Már Leifsson hefur verið ráðinn yfirlögfræðingur félagsins. 

Anna Rut hefur starfað hjá Kviku og forverum bankans frá árinu 2007, síðast sem forstöðumaður á skrifstofu forstjóra og stjórnarmaður í GAMMA Capital Management hf, að því er segir í tilkynningu. Áður hefur hún sinnt ýmsum störfum hjá Kviku en frá 2015-2017 var hún forstöðumaður viðskiptatengsla og þar á undan starfaði hún í áhættustýringu.

Anna Rut mun hafa yfirumsjón með öllum daglegum rekstri félagsins auk þess sem hún mun leiða samþættingarferli eignastýringar innan samstæðu Kviku inn í Júpíter sem stefnt er á að klára á næstu mánuðum. Anna Rut er með BSc próf í viðskiptafræði og MCF gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. 

Magnús Már hefur starfað hjá Kviku síðan í september 2016, síðast sem lögmaður á lögfræðisviði bankans. Í störfum sínum fyrir bankann var Magnús m.a. ritari fjármálanefndar bankans, ritari áhættu- endurskoðunar- og starfskjaranefndar auk þess sem hann átti sæti í stjórnum Rekstrarfélags Virðingar hf. og Framtíðarinnar lánasjóði hf. Áður starfaði Magnús Már hjá LOGOS lögmannsþjónustu frá árinu 2013-2016 og þar á undan sinnti hann ýmsum störfum í sjávarútvegi.

Magnús Már mun sinna lögfræðilegri ráðgjöf gagnvart framkvæmdastjóra og stjórn og fleiri verkefnum tengdum starfsemi félagsins ásamt því að vera ritari stjórnar. Magnús Már er með lögmannsréttindi og hefur lokið BA og ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.  

Júpíter rekstrarfélag hf. var stofnað árið 2006 og hefur frá árinu 2007 starfað með leyfi Fjármálaeftirlitsins sem rekstrarfélag verðbréfasjóða. Starfsleyfi félagsins tekur einnig til eignastýringar, fjárfestingarráðgjafar og vörslu og stjórnunar fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu. Júpíter er í eigu Kviku banka hf. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK