Sviðsmyndir Seðlabankans heldur bjartsýnar

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs. mbl.is/Eggert

Sviðsmyndir Seðlabankans sem kynntar voru í morgun virðast heldur bjartsýnar í ljósi þess að meginþorri atvinnulífsins hefur annaðhvort stöðvast eða er í hægagangi sökum hruns í ferðaþjónustu, ástands á alþjóðamörkuðum og samkomubanns.

Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands. Hann bendir á að staðan sé eðli máls samkvæmt mjög óljós og erfitt sé að setja fram raunsannar sviðsmyndir, þar sem lítið sé til af gögnum. Reynsla af því að koma heimshagkerfinu af stað eftir álíka stöðvun sé auk þess af skornum skammti.

„Í fjármálakreppunni urðu til að mynda ekki svona víðtækar raskanir á daglegu lífi fólks líkt og nú enda var hún allt annars eðlis,“ segir Konráð.

Heimilin þurfi að gefa vel í

Spurður um þær tvær sviðsmyndir Seðlabankans sem kynntar voru, hvar sú mildari gerir ráð fyrir að flæði ferðamanna aukist aftur í lok sumars en í þeirri dekkri varir ástandið lengur með hægari efnahagsbata, segir Konráð það vekja furðu að bankinn byggi á spá OECD um alþjóðlega efnahagsþróun frá 2. mars, sem var áður en víðtæk ferða- og samkomubönn voru sett á um allan heim.

Einnig sé einkennilegt að sviðsmyndirnar sýni aðeins um 1-4% samdrátt í einkaneyslu á milli ára.

„Í núverandi ástandi er greinilegt að fólk heldur að sér höndum og við sjáum tugprósentasamdrátt í ýmiss konar verslun og þjónustu. Vissulega mun þetta líklega og vonandi koma fljótt til baka en skaðinn er engu að síður skeður að miklu leyti,“ segir hann.

„Til að árið í heild sleppi svona vel hvað varðar einkaneyslu þurfa heimilin sennilega að gefa vel í á seinni hluta árs.“

Takmörk séu þó á hversu vel þau geti bætt í, enda bjóði sum þjónusta einfaldlega ekki upp á það.

„Fólk mun varla fara mikið oftar í klippingu eða út að borða og fara bara oftar til útlanda í haust. Svo má spyrja hvort það verði til staðar nægt vöruframboð til að standa undir þessum bata strax í haust svo að árið í heild komi svona vel út. Að þessu sögðu eru enn forsendur fyrir góðum bata með haustinu og á næsta ári, og við eigum að stefna ótrauð þangað.“

Frekari aðgerða þörf

Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa kynnt til sögunnar segir hann gott fyrsta skref.

„En okkur sýnist að það þurfi mun meira til líkt og við fjöllum um í umsögnum okkar um aðgerðapakkann og fjáraukalög. Vandinn sem fyrirtæki standa frammi fyrir er fyrst og fremst núna svo það þarf að vinna þetta hratt og gera frekar meira heldur en minna. Við höfum til að mynda lagt til tímabundna niðurfellingu tryggingagjalds sem auðveldar fyrirtækjum að halda fólki í vinnu og styður sérstaklega við mannaflsfreka starfsemi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK