Á annað hundrað sagt upp hjá Bláa lóninu

Horft yfir Bláa lónið með fjallið Þorbjörn í baksýn.
Horft yfir Bláa lónið með fjallið Þorbjörn í baksýn. mbl.is/Kristinn Magnússon

164 starfsmönnum Bláa lónsins hefur verið sagt upp. Starfsmenn fengu tilkynningu um uppsagnir símleiðis í dag en uppsögnunum var fylgt eftir með tölvupósti.

764 starfsmenn störfuðu hjá fyrirtækinu í febrúar síðastliðnum en fjöldi starfsmanna eftir aðgerðirnar verður um 600.

Bláa lónið áætlar einnig að það muni nýta sér hlutastarfaleið ríkisstjórnarinnar og bjóða rúmlega 400 starfsmönnum sínum skert starfshlutfall þar sem atvinnuleysistryggingasjóður greiðir hluta launa á móti fyrirtækinu. 

Þungbær en óhjákvæmileg aðgerð

Í tilkynningu sem Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, sendi til starfsfólks fyrr í dag sagði hann aðgerðina þungbæra en óhjákvæmilega í ljósi aðstæðna. 

Frétt af mbl.is

Bláa lónið lokaði 23. mars vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og verður lónið lokað til 30. apríl  en regl­ur yf­ir­valda um sam­komu­bann gilda til 12. apríl.

Lokun lónsins nær einnig til starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins í Svartsengi og versl­ana á Lauga­veg­in­um og á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Grímur Sæmundsen er forstjóri Bláa lónsins og stærsti eigandi þess.
Grímur Sæmundsen er forstjóri Bláa lónsins og stærsti eigandi þess. Rax / Ragnar Axelsson

Tilkynning Gríms fylgir hér á eftir orðrétt:

„Kæru samstarfsfélagar

Mér þykir mjög leitt að tilkynna ykkur að nú í morgun þurftum við að ráðast í uppsagnir hjá Bláa lóninu. Aðgerðin er okkur þungbær en óhjákvæmileg í ljósi aðstæðna. Alls nemur fækkunin 164 starfsmanni. Fjöldi starfsmanna eftir þessar aðgerðir verður um 600.

Það er alltaf erfitt að sjá á eftir góðum samstarfsfélögum. Eins og áður hefur komið fram erum við að glíma við fordæmalausar aðstæður sem dundu nánast yfir okkur á einni nóttu. Ég vil þakka öllum þessum starfsmönnum, sem nú hverfa frá fyrirtækinu, fyrir frábær störf og það er einlæg von mín að leiðir okkar geti legið saman að nýju þegar Bláa Lónið er komið aftur á full skrið.

Það er ljós tað skammtímaáhrif Covid-19 heimsfaraldursins eru gríðarleg en hver þau verða á framtíðarrekstur félagsins er óljóst að svo stöddu. Þessar aðgerðir eru liður í því að vernda, eins og kostur er, þau störf sem eftir standa hjá félaginu og jafnframt tryggja rekstur Bláa Lónsins til framtíðar.

Í ljósi þessara miklu áhrifa munum við einnig þurfa að horfa til úrræða ríkisstjórnarinnar hvað varðar að bjóða starfsmönnum, tímabundið, hlutastarf í stað fulls starfs þar sem atvinnuleysistryggingasjóður kemur til móts við starfsmenn með bótagreiðslum. Vegna þessa úrræðis munu starfsmenn annað hvort hafa heyrt í sínum yfirmanni í dag eða þá fá sent skjal á morgun morgun, föstudag, þar sem boð um skert starfshlutfall kemur fram og óskað er rafrænnar undirritunar, samþykki starfsmaður að ganga að því boði. Svo öllum sé það ljóst, tel ég skylt að taka fram, að þetta úrræði mun skerða laun starfsmanna tímabundið. Stjórnendur munu svara þeim spurningum sem upp kunna að koma í tengslum við þessa aðgerð. Það er mikilvægt að við höfum það öll í huga að þessar aðstæður eru tímabundnar og við vonumst til að starfsemin komist í eðlilegt horf sem allra fyrst.

Ég hef fulla trú á því að við munum komast í gegnum þennan skafl saman. Á tímum sem þessum er mikilvægt að við stöndum þétt saman og hjálpumst að við að byggja upp góðan vinnustað til framtíðar.

Með þökkum og góðri kveðju,

Grímur“

 Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK