Óttast skort á íbúðahúsnæði til lengri tíma

HMS segir að komið gæti til skort á íbúðarhúsnæði á …
HMS segir að komið gæti til skort á íbúðarhúsnæði á komandi árum ef ekki verður haldið áfram að byggja nýjar íbúðir.

Ný talning Samtaka iðnaðarins (SI) á íbúðahúsnæði í byggingu sýnir að 42% færri íbúðir eru nú á fyrstu byggingarstigum á höfuðborgarsvæðinu en sambærileg talning sýndi síðasta vor. Ef ekki verður brugðist við þessari stöðu þýðir það að innan fárra ára má búast við svipuðum skorti á íbúðarhúsnæði og þeim sem varð árið 2017. Þetta kemur fram hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS).

Í greiningu HMS kemur fram að þrátt fyrir að meira hafi verið byggt af íbúðarhúsnæði undanfarin ár og að búast megi við auknu framboði vegna fækkunar erlendra ríkisborgara og minni Airbnb-útleigu vegna efnahagslegrar óvissu sem nú ríki, dugi það ekki til að mæta íbúðaþörf til lengri tíma. Halda þurfi áfram að byggja í samræmi við undirliggjandi íbúðaþörf, en HMS segir að til lengri tíma þurfi að byggja 1.800 íbúðir um allt land árlega til ársins 2040.

Tímabundnar aðstæður kalli nú á að gætt verði aukinnar varkárni á næstu 2-4 árum og mælir stofnunin með að miðað verði við 1.500 íbúða þörf á ári þangað til markaðurinn nær jafnvægi á ný. „Þrátt fyrir að talsvert sé af nýjum íbúðum í sölu núna verður staðan fljótlega önnur ef samdráttur í nýbyggingum verður jafn mikill og talning SI sýnir. Það framboð sem er til staðar af nýju íbúðarhúsnæði í dag er mun minna en á fyrstu árunum eftir bankahrunið og því gæti alvarlegur húsnæðisskortur, með tilheyrandi hækkun fasteignaverðs, látið á sér á kræla á ný ef ekkert er að gert,” er haft eftir Hermanni Jónssyni, forstjóra HMS.

 Samkvæmt talningu SI fækkaði íbúðum á fyrstu byggingarstigum, eða þeim sem ná „að fokheldu“ um ríflega 1.000 íbúðir frá sama tíma í fyrra, en það er um helmings fækkun frá fyrri spá. Leita þarf aftur til áranna 2011 og 2012 til að finna viðlíka samdrátt í byggingu nýrra íbúða.

HMS segir að enn sé óuppfyllt þörf fyrir nýjar íbúðir á landinu öllu, mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu. Verði samdrátturinn núna viðlíkur því sem varð eftir hrunið náist markmiðið um 1.500 íbúðir ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK