Dregur úr halla á vöruskiptum

Fluttar voru út vörur fyrir 47,9 milljarða króna í febrúar 2020 og inn fyrir 49,7 milljarða króna fob (53,4 milljarða króna cif). Vöruviðskiptin í febrúar, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 1,8 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 15,6 milljarða króna í febrúar 2019 á gengi hvors árs fyrir sig.

Vöruviðskiptajöfnuðurinn í febrúar 2020 var því 13,8 milljörðum króna minni en á sama tíma fyrir ári. Hverfandi viðskipti voru með skip og flugvélar í mánuðinum, segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Aukið verðmæti útfluttra sjávarafurða

Verðmæti vöruútflutnings var 21,6 milljarða króna minni á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2020 en á sama tímabili fyrir ári síðan, eða 17,8% á gengi hvors árs fyrir sig. Munar þar mest um viðskipti með skip flugvélar í janúar 2019. Iðnaðarvörur voru tæpur helmingur alls útflutnings, eða 46,2%, og var verðmæti þeirra 12,7% minna en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 44,7% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 7,8% meira en á sama tíma árið áður. Mest var aukning á frystum heilum fiski og frystum flökum. Á móti kom minna verðmæti í ferskum fiski á milli ára.

Verðmæti vöruinnflutnings var 12,5 milljörðum króna minni á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2020 en á sama tímabili fyrir ári, eða 11,1% á gengi hvors árs fyrir sig. Innflutningur dróst mest saman í hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingarvörum en jókst á flutningstækjum, eldsneyti og smurolíum og neysluvörum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK