„Horfum í gegnum ástandið“

Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins.
Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins. mbl.is/Golli

Í gær samþykkti Alþingi aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Samtals var um sex þingmál að ræða sem hljóðuðu upp á tæplega 26 milljarða.

Var þetta aukning um 4,6 milljarða miðað við tillögur í fyrstu umferð. Meðal þess sem samþykkt var í frumvarpinu var að bæta bílgreinum við í „allir vinna“ átakið, en það heimilar endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna allra bílaviðgerða sem kosta að lágmarki 25 þúsund krónur.

„Þetta skiptir miklu máli fyrir þessa grein,“ segir Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins og forstjóri Öskju, í samtali við mbl.is. Samtals vinna um fjögur þúsund manns í bíliðninni og Jón Trausti segir þessar aðgerðir hafa mjög jákvæð áhrif. „Ég er mjög ánægður með ákvörðun Alþingis og snögga afgreiðslu að koma okkur inn í pakkann.“

„Mjög góður dempari fyrir okkur“

Hann segir að bílaumboð og bílaverkstæði hafa fundið fyrir samdrætti síðasta ár og ástandið vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, með tilheyrandi samdrætti hjá bílaleigum, komi niður á greininni. Hann segir einhver umboð hafa brugðist við undanfarið með uppsögnum, en flestir fara hlutastarfsleiðina. „Þetta er mjög góður dempari fyrir okkur,“ segir hann um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og segist hann vona til að „allir vinna“ átakið muni minnka höggið fyrir bílgreinina.

Spurður um útlit greinarinnar á komandi misserum segir hann að hljóðið sé þrátt fyrir allt nokkuð gott. „Þetta hefur áhrif í augnablikinu, en við horfum í gegnum ástandið. Það mun ekki vara lengi,“ segir hann.

Nýskráning bíla hefur verið 11% hærri á fyrsta ársfjórðungi miðað …
Nýskráning bíla hefur verið 11% hærri á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra. Jón Trausti er bjartsýnn á árið þrátt fyrir áhrif af útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Jákvæð áhrif á innanlandsmarkaðinn

Meðal þess sem hefur haft áhrif á bílaumboðin er að bílaleigur hafa seinkað afhendingu bíla sem áttu að koma núna í vor fram á seinni hluta sumars og jafnvel til næsta árs. Hins vegar segir Jón Trausti að ágætt hafi verið að gera í þjónustu og menn séu bjartsýnir þar fyrir sumarið.

„Ég held að Íslendingar muni ferðast innanlands í sumar,“ segir Jón Trausti og vísar til áhrifa af kórónuveirunni. Þannig sé núna að aukast eftirspurn eftir hjólhýsum og fellihýsum og telur hann að samhliða muni fólk fara að velta fyrir sér að fjárfesta í stærri bifreiðum til að draga slíka vagna. Þá horfi fólk ekki síður til sparneytnari bifreiða, en samkvæmt nýjustu tölum Samgöngustofu eru rafmagnsbílar og rafmagns tvinn- og tengilbílar rúmlega helmingur nýskráðra bíla hér á landi í ár. „Ég held að innanlandsmarkaðurinn verði sterkari eftir lok apríl,“ segir Jón Trausti.

„Nokkrir töff mánuðir“ en seinni hlutinn ætti að vera sterkur

Hann viðurkennir að áhrifin af samdrætti í ferðaþjónustu hafi talsverð áhrif í gegnum bílaleigurnar, sem hafi jafnvel verið með helming nýskráðra bíla. „En ef við horfum á að þetta séu nokkrir töff mánuðir og sumarið mögulega farið forgörðum að einhverju leyti, þá ættum við að koma sterkari inn seinni hlutann,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK