Áhrifin af fækkun ferðamanna óljós

Gera megi ráð fyrir umtalsverðum breytingum á umgjörð leigumarkaðar.
Gera megi ráð fyrir umtalsverðum breytingum á umgjörð leigumarkaðar. mbl.is/Ómar

Minni spenna ríkir nú á húsnæðismarkaði en oft áður og gera má ráð fyrir rólegum markaði næstu misserin á meðan áhrif kórónuveirufaraldursins vara í þjóðfélaginu.

Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans, en þar segir að fækkun ferðamanna gæti haft þær afleiðingar að íbúðir sem voru í útleigu til ferðamanna rötuðu inn á almennan leigumarkað.

„Áhrifin af slíkri yfirfærslu, ef af yrði, eru þó óljós á þessu stigi máls.“

Bent er á að leiguverð hafi lækkað milli mánaða í febrúar en hafi þó almennt hækkað hraðar en íbúðaverð á allra síðustu árum.

„Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 0,2% milli janúar og febrúar. 12 mánaða hækkun mælist því 4,8% og lækkar um 0,8 prósentustig frá því í janúar. Til samanburðar mældist 12 mánaða hækkun íbúðaverðs í fjölbýli 4,4% en íbúðaverð hækkaði milli mánaða í febrúar.

Árið 2017 skeri sig úr

Leiguverð hefur hækkað nokkuð hraðar en kaupverð íbúða í fjölbýli sé litið til þróunar á síðustu tveimur árum. Í fyrra hækkaði leiguverð um 5,7% á sama tíma og íbúðaverð hækkaði um 3,6% og árið þar áður hækkaði leiguverð um 8,3% á sama tíma og íbúðaverð hækkaði um 5,5%,“ segir í hagsjánni.

Á árunum 2014-2017 hafi hækkun íbúðaverðs hins vegar verið talsvert meiri en samsvarandi hækkun á leiguverði og skeri árið 2017 sig sérstaklega úr.

„Það ár hækkaði íbúðaverð í fjölbýli hátt í 20% milli ára á sama tíma og leiguverð hækkaði ekki nema um 12%. Síðan þá hafa hækkanir á leiguverði verið meiri en hækkanir á kaupverði íbúða í fjölbýli sé litið til meðalbreytinga milli ára.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár um nýþinglýsta leigusamninga í febrúar var algengast að þriggja herbergja íbúð væri leigð út. Meðalfermetraverð slíkrar íbúðar reyndist vera hæst í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins, tæplega 3.000 kr/fm, og er verðið þar meira og minna óbreytt frá því í febrúar fyrir ári.“

Lægsta verð slíkrar íbúðar hafi verið á Suðurnesjum, 1.860 kr/fm, og lækki það verð um 11% frá því í febrúar fyrir ári þegar fermetraverð reyndist vera 2.100 kr. að meðaltali.

Ætlað að stuðla að langtímaleigu

„Félags- og barnamálaráðherra kynnti nýverið frumvarp um breytingar á húsaleigulögum sem hefði það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Með þessu eru stjórnvöld að efna loforð sín sem gefin voru í tengslum við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á síðasta ári, svokölluðum lífskjarasamningum.

Frumvarpið felur í sér takmarkanir á hækkun leiguverðs, þar sem bundið verði í lög hvernig leigan geti þróast á leigutíma. Almenna reglan yrði sú að líða þurfi að lágmarki 12 mánuðir milli reglubundinna breytinga og er lagt til að hækkanir geti aldrei verið umfram hækkun á vísitölu neysluverðs.

Einnig er lögð fram krafa um að leigusalar skrái leigusamninga í gagnagrunn hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem fram kemur lengd samnings og leiguverð og yrði sektum beitt við vanrækslu á þessari skyldu. Skráningin yrði skilyrði fyrir núverandi skattaívilnunum vegna leigutekna og eins fyrir húsnæðisbótum til leigjenda. Breytingar á leiguverði tækju jafnframt ekki gildi nema þær yrðu skráðar í umræddan grunn.

Frumvarpinu er einnig ætlað að stuðla að langtímaleigu þar sem takmarkanir verði settar á heimildir til að gera tímabundna leigusamninga og eins settar takmarkanir á heimildir leigusala til uppsagnar á ótímabundnum samningum,“ segir enn fremur í hagsjánni.

Þetta séu þó ekki einu aðgerðir stjórnvalda á leigumarkaði, því stuðningur við lífskjarasamninga feli einnig í sér loforð um aukin fjárframlög til kerfis almennra íbúða.

Aukið framboð íbúða fyrir fólk undir tekju- og eignamörkum

„Sá stuðningur felst í framlögum sem veitt eru til lögaðila sem reknir eru án hagnaðarsjónarmiða til uppbyggingar á leiguíbúðum fyrir ákveðna hópa.

Nú þegar hefur tæplega 12 milljörðum verið úthlutað til byggingar og kaupa á 2.123 íbúðum á árunum 2016-2019. Tæplega helmingur hefur farið til félaga sem bjóða íbúðir fyrir fólk undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Þetta eru félög á borð Bjarg íbúðafélag sem er í eigu ASÍ og BSRB. Því næst hefur tæplega fjórðungur farið til uppbyggingar námsmannaíbúða og svo hafa 20% farið til sveitarfélaga sem úthluta íbúðum til sinna íbúa.

Gera má ráð fyrir því að framboð íbúða af þessu tagi muni aukast talsvert á næstu árum. Samkvæmt fjármálaáætlun til næstu ára mun ríkissjóður verja 3,8 mö.kr. árlega á árunum 2020-2022, sem á að duga fyrir 1.800 íbúðum, til viðbótar við núverandi kerfi.

Gera má ráð fyrir umtalsverðum breytingum á umgjörð leigumarkaðar í takt við þau áform sem hér hafa verið tíunduð. Fyrirsjáanleiki í verðþróun gæti orðið talsvert meiri, þar sem leiguverð mun einungis geta tekið breytingum eftir settum reglum og einnig er viðbúið að framboð leiguíbúða sem byggðar eru með stuðningi frá hinu opinbera muni aukast í takt við fjármálaáætlun og loforð stjórnvalda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK