Allt seldist upp á einum og hálfum tíma

Eggert Stefán K. Jónsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hreysti, reyndi sjálfur …
Eggert Stefán K. Jónsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hreysti, reyndi sjálfur að sjá til þess að viðskiptavinir virtu tveggja metra regluna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er búið að vera brjálað að gera síðan Trump lokaði landinu,“ segir Eggert Stefán K. Jónsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hreysti, í samtali við mbl.is. Verslunin, sem selur ýmsan líkamsræktarvarning og æfingatæki, fékk nýja sendingu í morgun sem seldist upp á einni og hálfri klukkustund. 

Ákveðið var að tvískipta lagernum, það er annars vegar fyrir viðskiptavini sem koma í verslunina og hins vegar fyrir netverslunina, til að gæta sanngirni. Ketilbjöllurnar voru hvað vinsælastar í netversluninni. „Lagerinn á þessum týpísku ketilbjöllum seldist upp eins og hendi væri veifað. Flestir eru bara að kaupa sér smotterí, sett af handlóðum, dýnu eða sippuband, en þegar þetta eru tugþúsundir manna verður þetta mikið.“

Eftirspurn eftir líkamsræktarvörum hefur aukist gríðarlega eftir að samkomubann tók gildi hér á landi og ekki síst eftir að það var hert fyrir um viku og líkamsræktarstöðvunum var lokað. „Við gátum ekki séð þetta fyrir frekar en aðrir, en það má ekki gleyma því að það eru tugir þúsunda að æfa að staðaldri í líkamsræktarstöðvum á Íslandi og svo er þeim öllum lokað á einu bretti,“ segir Eggert. 

Ákafir viðskiptavinir Hreystis reyndu hvað þeir gátu til að viðhalda …
Ákafir viðskiptavinir Hreystis reyndu hvað þeir gátu til að viðhalda tveggja metra reglunni þegar ný lóðasending barst í verslunina í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

 „Þá var nú bara horft á mig, einhvern karlpung

Öryggisvörður var í versluninni í morgun og hafði eftirlit með því að ekki væru fleiri en 20 inni hverju sinni. „Þess vegna myndaðist löng röð fyrir utan því við vorum að hleypa takmarkað inn. En það seldist upp í búðinni á einum og hálfum tíma, þrátt fyrir fáa inni í einu.“ Eggert reyndi sjálfur að hafa stjórn á fjarlægð milli fólks fyrir utan verslunina. „Þá var nú bara horft á mig, einhvern karlpung að reyna að gapa eitthvað,“ segir Eggert og hlær. „Við pössuðum þetta hérna inni en ráðum illa við þetta fyrir utan.“

Eggert segir að flestir séu að fjárfesta í minni búnaði, svo sem handlóðum, ketilbjöllum, æfingamottum og sippuböndum. Þó eru einnig dæmi um að heilu lyftingabekkirnir með 160 kílóa lyftingasettum rjúki út. 

Hvað ætli Víðir segi við þessu?
Hvað ætli Víðir segi við þessu? mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt tómt hjá erlendum birgjum

„Ég held að við séum alls ekki búin að svara þeirri þörf sem er núna, en um leið og æfingastöðvar verða opnaðar aftur hverfur sú þörf. En það skrítna sem ég hef aldrei upplifað áður í viðskiptum er að birgjarnir úti eru tómir,“ segir Eggert, sem ætlar sér að gera allt sem í hans valdi stendur til að svara þeirri eftirspurn sem enn er til staðar. „Við erum í viðskiptum við marga birgja og fáum bara kropp í næstu sendingum. Þannig að fólk sem á 12 kílóa ketilbjöllu getur örugglega selt hana dýrt á blandi bráðlega,“ segir hann léttur. 

„En jákvæða fréttin í þessu er að fólk er að æfa og fólk vill ekki hætta að æfa. En auðvitað hefði ég viljað skaffa öllum allt sem þeir vilja, það er skrítið að geta ekki svarað eftirspurn en þannig er það bara.“

mbl.is

Kórónuveiran

29. maí 2020 kl. 13:30
1
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK