Herbergjanýting hrundi í mars

Frá Hótel Canopy í miðbæ Reykjavíkur. Mynd úr safni.
Frá Hótel Canopy í miðbæ Reykjavíkur. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Herbergjanýting hótela í Reykjavík fór úr að meðaltali 72,3% fyrstu vikuna í marsmánuði niður í 2,1% síðustu viku mánaðarins. Bent er á þetta í hagsjá Landsbankans.

Tekið er þar fram að neikvæð áhrif víðtækra ferðatakmarkana eigi þó ekki bara við um Ísland. Herbergjanýting í höfuðborgum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkja hafi til að mynda einnig hrunið í marsmánuði.

Herbergjanýting í höfuðborgum Skandinavíu lá á bilinu 24-26% í mars en til samanburðar var hlutfallið 37,5% í Reykjavík og því töluvert hærra en í Skandinavíu. Í mars í fyrra var herbergjanýting í Skandinavíu á bilinu 63-74% en hún var 82% í Reykjavík.

Smjörþefurinn af því sem koma skal

„Herbergjanýtingin síðustu vikuna í mars gefur smjörþefinn af því sem koma skal á allra næstu vikum, a.m.k. meðan ferðatakmarkanir eru jafn strangar og í dag. Flest bendir til þess að ekki verði slakað á ferðatakmörkunum í helstu viðskiptalöndum fyrr en í fyrsta lagi í maí, hugsanlega síðar,“ segir í hagsjá bankans.

„Jafnvel þótt ferðatakmörkunum verði aflétt ríkir töluverð óvissa um hvenær fólk fer að ferðast til annarra landa á ný. Þessi þróun hefur í raun kippt fótunum undan rekstri hótela til skemmri tíma litið en tekjur hótela í Reykjavík síðustu vikuna í liðnum marsmánuði voru einungis 2% af tekjum síðustu vikuna í mars á síðasta ári.“

Bent er á að stórar hótelkeðjur hér á landi hafi brugðið á það að ráð að loka hluta starfseminnar meðan mestu ferðatakmarkanirnar verði í gildi.

„Ferðalög erlendra ferðamanna inn í landið hafa stöðvast en það hafa einnig brottfarir Íslendinga til annarra landa. Það þýðir að eftirspurn ferðalaga Íslendinga mun að einhverju leyti færast inn í landið á næstu mánuðum. Gistinóttum Íslendinga á hótelum innanlands fjölgaði um fjórðung í janúar og var það þá mesta fjölgun sem mælst hafði síðan í júní 2018. Þessari fjölgun í janúar var fylgt eftir með annarri eins fjölgun nú í febrúar,“ segir í hagsjánni.

Ferðatakmarkanir lendi mismjúklega á landshlutum

Athyglisvert verði að fylgjast með fjölgun gistinótta Íslendinga á innlendum hótelum á næstunni.

„Samkomubann og fyrirmæli um að takmarka ferðalög hér innanlands munu eflaust hafa neikvæð áhrif, a.m.k. til næstu vikna, en upp frá því kann aukin gisting Íslendinga á hótelum að milda það högg sem brotthvarf erlendra ferðamanna mun valda. Í því samhengi má benda á að gistinætur Íslendinga voru tæplega 10% allra gistinótta á hótelum hér á landi á síðasta ári.“

Hlutfallið sé þó mjög breytilegt eftir landsvæðum.

„Það var hæst á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða tæplega fjórðungur. Næst hæst var það á Norðurlandi, eða tæplega fimmtungur. Lægst var það á höfuðborgarsvæðinu, 6,5%. Af þessu má álykta að hugsanlega kunni ferðatakmarkanir milli landa að lenda með mýkstum hætti á annars vegar Vesturlandi og Vestfjörðum og hins vegar á Norðurlandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK