Nánast öll verða fyrir tekjumissi

Fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son.
Fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son.

Rúmlega 90 prósent forsvarsmanna fyrirtækja telja að tekjur muni minnka milli annars ársfjórðungs í fyrra og sama fjórðungs í ár, vegna áhrifa COVID 19 á íslenskt atvinnulíf. Minnkun tekna er að meðaltali áætluð 50 prósent en hjá þeim sem svara að hún minnki nemur samdrátturinn tæplega 55 prósentum. 80 prósent forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja að tekjur muni minnka í marsmánuði á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu fyrir Samtök atvinnulífsins og er birt á vef samtakanna.

Um 90 prósent af íslenskum atvinnurekendum gripu til hagræðingaraðgerða vegna ástandsins og þar af var skert starfshlutfall starfsmanna algengasta aðgerðin. Þar á eftir kom niðurskurður annars rekstarkostnaðar.

Tæplega sex þúsund uppsagnir og 24 þúsund í skert hlutastarf

Uppsagnir voru tæplega sex þúsund vegna COVID 19. Langstærstur hluti í ferðaþjónustu og flutningum. Um 24 þúsund eru komnir í skert starfshlutfall af sömu ástæðum. Sú tala er nokkru lægri en fjöldi umsókna um hlutabætur hjá Vinnumálastofnun föstudaginn 3. apríl, en þær eru um 30 þúsund. Sá mismunur sýnir vel hversu hratt forsendur breytast frá degi til dags, en könnunin var gerð á tímabilinu 26. til 31. mars, segir á vef SA.

Mest notkun hlutabótaúrræðisins er í flutningum og ferðaþjónustu, eða helmingur áformaðra skertra starfshlutfalla, en þar á eftir kemur verslun og önnur þjónusta.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru spurðir hversu lengi þeir teldu að COVID-19 myndi hafa áhrif á rekstur fyrirtækjanna. Flestir, eða 30 prósent, töldu áhrifin myndu vara í þrjá til fjóra mánuði og fjórðungur taldi áhrifin myndu standa í fimm til sjö mánuði. Allmargir, eða 29 prósent, töldu áhrifin myndu vara lengur en tíu mánuði og að meðaltími þeirra væri áætlaður átta mánuðir.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru beðnir um mat sitt á breytingu tekna fyrirtækjanna milli mars 2019 og mars 2020. Niðurstaðan er sú að 80 prósent telja að þær minnki, 15 prósent að þær standi í stað og fimm prósent að þær aukist. Minnkun tekna er að meðaltali áætluð 37 prósent en hjá þeim sem svara að hún minnki nemur samdrátturinn tæplega 50%.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru beðnir um mat sitt á breytingu tekna fyrirtækjanna milli annars ársfjórðungs, frá apríl fram til júní, 2019 og sama fjórðungs 2020. Niðurstaðan er sú að 92 prósent þeirra telja að tekjur minnki, fimm prósent að þær standi í stað og þrjú prósent að þær aukist. Minnkun tekna er að meðaltali áætluð 50 prósent en hjá þeim sem svara að hún minnki nemur samdrátturinn tæplega 55 prósentum.

Forsvarsmenn voru spurðir hvort fyrirtæki þeirra hefði gripið til hagræðingaraðgerða, eða komi til með að grípa til hagræðingaraðgerða, vegna COVID-19. Ef svo er hvers konar aðgerða hefur verið, eða verður, gripið til. Gefnir voru sjö svarmöguleikar: Ekki gripið til hagræðingaraðgerða, skert starfshlutfall starfsmanna, uppsagnir starfsmanna, skert þjónusta, styttur þjónustu- eða rekstrartími, dregið úr öðrum rekstrarkostnaði eða annað. Niðurstaðan er sú að tæplega 90 prósent höfðu gripið til hagræðingaraðgerða og var skert starfshlutfall starfsmanna algengasta aðgerðin en þar á eftir kom niðurskurður annars rekstrarkostnaðar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK