Apple Music vill taka yfir, nú á Íslandi

Apple Music varð aðgengilegt í 52 nýjum löndum í dag, …
Apple Music varð aðgengilegt í 52 nýjum löndum í dag, þar á meðal á Íslandi. Hér fá notendur sex mánuði fría, sem er lengra tímabil en annars staðar er boðið upp á. AFP

Apple Music hóf innreið sína í morgun á íslenskan streymismarkað og ræðst þar með til atlögu að risanum sem þar hefur tögl og hagldir, Spotify. Meira en helmingur Íslendinga notar Spotify en það gæti breyst ef Apple tekst að lokka fólk yfir.

Apple Music er í grunninn tónlistarveita eins og Spotify, sem er aðgengileg inni í Music-smáforritinu sem þegar er inni í hverjum Apple síma. Í kynningarskyni gefur Apple Íslendingum sex mánuði ókeypis og eftir kynningartímabilið kostar mánuðurinn 10,99 Bandaríkjadali, andvirði 1595 króna. Til samanburðar kostar Spotify Premium 9,99 evrur, andvirði 1570 króna. Hjá þeim fæst þó einnig ókeypis útgáfa en þar skyggja ágengar auglýsingar á upplifunina.

Á Apple Music munu Íslendingar að líkindum fá sama úrval erlendrar tónlistar og á Spotify, Drake, Billie Eilish og The Weeknd eru öll á sínum stað. Þegar kemur að íslenskri tónlist er þó ekki um eins auðugan garð að grisja hjá Apple og hjá Spotify. Flóni er þannig aðgengilegur á Apple en Gísli Pálmi er hvergi sjáanlegur, og af nýju plötunni hjá Jóa Pé og Króla hvorki tangur né tetur.

Spotify er gríðarlega mikið notað á Íslandi, enda er þar …
Spotify er gríðarlega mikið notað á Íslandi, enda er þar aðgangur að öllu því helsta innlendu sem erlendu. AFP

Apple er alvara

Gera má ráð fyrir að íslensk útgáfufyrirtæki verði þó fljót að koma sínu efni inn á Apple Music, ef stefnir í að Íslendingar gefi þessu tækifæri. Ljóst er að áhugi er á því, enda sex mánuðir lengri prufutími en þeir eru vanir að gefa. Annað sem á eftir að koma í ljós er hvort Apple verði með starfsmann á Íslandi til að reka erindi tónlistarveitunnar. Íslenskum málefnum á Spotify stýrir starfsmaður í Svíþjóð, sem kvað vera óíslenskumælandi.

Apple virðist vera alvara með tónlistarveituna. Áætlað er að þegar séu 68 milljónir manna í áskrift hjá þeim og í sömu svipan og veitan verður aðgengileg á Íslandi, er hún líka að verða aðgengileg í 20 löndum til viðbótar. Samtals er veitan því nú komin til 167 landa, sem er traustvekjandi hlutfall þegar það er borið saman við Spotify, sem er aðeins aðgengilegt í 79 löndum. Spotify skarar þó fram úr í áskrifendum, sem eru 124 milljón, og hlustendum samtals, sem eru 271 milljón.

YouTube fór þá af stað með YouTube Music fyrir nokkrum árum og hefur verið að gera meira úr áskrifendaþjónustu á allra síðustu árum, en þar eru áskrifendur orðnir 20 milljónir. Þó mun það eitt vaka fyrir hluta þeirra 20 milljóna, að losa sig við auglýsingar á YouTube yfirleitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK