Bréf Icelandair hrynja í Kauphöll

Icelandair hefur orðið fyrir gríðarlegu höggi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Icelandair hefur orðið fyrir gríðarlegu höggi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlutabréf Icelandair Group hafa hrunið í verði í Kauphöll Íslands það sem af er morgni og hefur mikið flökt verið á bréfunum. Við opnun nam lækkunin tæpum 15%. Skömmu síðar hjörnuðu bréfin nokkuð við en féllu svo að nýju og nemur lækkunin nú um 17%.

Félagið sendi frá sér tilkynningu eftir lokun markaða á miðvikudag (síðasta viðskiptadag) þar sem tilkynnt var um að það þyrfti að ráðast í enn frekari niðurskurðaraðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins. Lýsti félagið aðgerðunum sem yfirgripsmiklum og að þær myndu fela í sér uppsagnir og breytingar á skipulagi. Hins vegar yrði lögð áhersla á að halda uppi grunnstarfsemi á öllum sviðum til að tryggja þann sveigjanleika að félagið gæti brugðist hratt við um leið og markaðir myndu opnast á ný.

„Við þurfum að aðlaga starfsemi Icelandair Group þeim veruleika sem blasir við. Það er gríðarleg óvissa framundan og því miður eru uppsagnir starfsfólks óumflýjanlegar til að komast í gegnum þetta krefjandi tímabil. Við leggjum áherslu á að tryggja grunnstarfsemi félagsins til að geta komist hratt af stað aftur og vonumst auðvitað til að geta boðið stærstum hluta þeirra starfsmanna sem um ræðir vinnu aftur um leið og aðstæður batna. Einn af helstu styrkleikum félagsins er sveigjanleiki til að bregðast hratt við breytingum á markaði og við ætlum okkur að vera tilbúin til að sækja fram af miklum krafti þegar tækifærin gefast á ný,“ sagði Bogi Nils í tilkynningunni.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Miðað við gengi Icelandair Group á markaði núna er markaðsvirði félagsins rúmir 13 milljarðar króna. Hefur gengi félagsins ekki verið lægra frá því í árslok 2009 eða um svipað leyti og það gekk í gegnum allsherjar fjárhagslega endurskipulagningu.

Í morgun greindi Fréttablaðið frá því að stærsti hluthafi Icelandair Group, PAR Capital, hefði selt 0,2% hlut í félaginu og fer eftir söluna með 13,5% í félaginu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK