Rúmlega 2.000 sagt upp hjá Icelandair

Rúmlega tvö þúsund starfsmönnum verður sagt upp störfum hjá Icelandair um mánaðamótin. Uppsagnirnar ná til allra hópa innan félagsins, en þær hafa þó mest áhrif á störf beintengd framleiðslu, svo sem áhafnir, viðhaldsþjónustu og starfsfólk flug- og farþegaþjónustu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair Group til Kauphallarinnar fyrir skömmu. Þeir sem starfa áfram hjá félaginu eru langflestir í skertu starfshlutfalli og aðrir í fullu starfi með skert laun.

Heild­ar­fjölda stöðugilda hjá Icelanda­ir Group hefur því fækkað um tæpan helming en þau voru meðaltali 4.715 á ár­inu 2019. Í mars var 240 sagt upp. 

Erfiðar en nauðsynlegar aðgerðir

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra að aðgerðirnar séu erfiðar en því miður nauðsynlegar. 

„Það er gríðarleg óvissa framundan og við þurfum að undirbúa okkur undir takmarkaða starfsemi hjá félaginu um óákveðinn tíma. Við vonumst til að aðstæður í heiminum fari að batna sem fyrst og að við getum boðið sem stærstum hluta starfsmanna sem um ræðir vinnu aftur. Markmiðið með þessum aðgerðum er jafnframt að tryggja grunnstarfsemi félagsins og halda nauðsynlegum sveigjanleika til að geta brugðist hratt við þegar eftirspurn tekur við sér á ný,“ segir Bogi Nils. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppsagnirnar eru hluti af breytingum á skipulagi til að bregðast við þeirri stöðu sem félagið stendur frammi fyrir vegna útbreiðslu COVID-19 farsóttarinnar, með tilheyrandi ferðatakmörkunum, sem haft hefur gríðarleg áhrif á eftirspurn eftir flugi og ferðaþjónustu um allan heim. „Mikil óvissa ríkir um nánustu framtíð og eru aðgerðirnar liður í að búa félagið undir órætt tímabil þar sem starfsemi þess verður í lágmarki. Á sama tíma verður lögð áhersla á að halda uppi grunnstarfsemi á öllum sviðum til þess að tryggja þann sveigjanleika sem þarf til að félagið geti brugðist hratt við um leið og markaðir opnast á ný,“ segir í tilkynningunni. 

Félagið hefur á undanförnum vikum leitað allra leiða til að draga úr útstreymi fjármagns, svo sem með því að endursemja við birgja og fjármögnunaraðila. Stærsti kostnaðarliður félagsins er eftir sem áður launakostnaður og er því nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að draga úr þeim kostnaði.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar í hádeginu þar sem þriðji aðgerðapakki stjórnvalda vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirunnar var kynntur að stjórnvöld hafi verið í miklum samskiptum við Icelandair til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um aðkomu ríkisins ef bjarga þarf Icelandair.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að Icelandair komi til með að geta nýtt sér þær aðgerðir sem kynntar voru í dag, það er framlengingu á hlutabótaleiðinni og stuðning úr rík­is­sjóði vegna greiðslu hluta launa­kostnaðar á upp­sagn­ar­fresti.

Sjö svið í stað átta og átta framkvæmdastjórn í stað níu

Til viðbótar við þessar aðgerðir hafa breytingar verið gerðar á skipulagi félagsins. Starfseminni verður framvegis skipt í sjö svið í stað átta áður.

Þau eru: Sölu- og þjónustusvið, fraktflutningasvið (Icelandair Cargo), flugvélaleiga og ráðgjöf (Loftleiðir Icelandic), flugrekstrarsvið, fjármálasvið, mannauðssvið og nýtt svið, viðskipta- og stafræn þróun. Tómas Ingason, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni verður framkvæmdastjóri nýs sviðs. Ívar S. Kristinsson, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri flugflota og leiðakerfis, verður ekki hluti af framkvæmdastjórn en mun áfram stýra flotamálum félagsins. Í kjölfar þessara breytinga verða átta í framkvæmdastjórn að meðtöldum forstjóra í stað níu áður.

Einnig hafa talsverðar skipulagsbreytingar verið gerðar innan sviða og deilda fyrirtækisins og við það fækkar stjórnendum í efstu lögum um 19.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK