„Ekki hægt að slökkva ljósin og fara“

Ísgöngin í Langjökli hafa verið lokuð frá 21. mars. Tíminn …
Ísgöngin í Langjökli hafa verið lokuð frá 21. mars. Tíminn fer því fyrst og fremst í nauðsynlegt viðhald. Ljósmynd/Aðsend

Allir starfsmenn Into the Glacier ehf., sem heyrir undir Arctic Adventure sem sagði öllum 152 starfsmönnum sínum upp í gær, eru komnir á uppsagnarfrest og munu fyrst og fremst sinna viðhaldi í ísgöngunum í Langjökli næstu mánuði. 12 starfa hjá fyrirtækinu í dag en þegar mest var voru starfsmennirnir 35, en stór hluti þeirra í hlutastörfum. 

„Við munum nota næstu vikur til að endurskipuleggja og fara yfir þær sviðsmyndir sem eru í gangi og vonandi verður hægt að endurráða alla eða flesta, það ætti að skýrast vonandi fyrir lok sumarsins,“ segir Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into the Glacier, í samtali við mbl.is. Göngin voru opnuð fyrir fimm árum og eru stærstu manngerðu ísgöng í heimi. 

Hann segir aðgerðapakka stjórnvalda sem kynntur var í vikunni gera fyrirtækinu kleift að bregðast við ástandinu og komast hjá gjaldþroti. „Ef allt fer á versta veg er hægt að koma fyrirtækinu í hýði og bíða.“

Hátt í 60 þúsund manns heim­sóttu ís­göng­in í fyrra en …
Hátt í 60 þúsund manns heim­sóttu ís­göng­in í fyrra en Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into the Glacier, segir að ekki sé hægt að gera neinar áætlanir um fjölda heimsókna í ár. Ljósmynd/Aðsend

18 mánaða viðhaldi sinnt á örfáum mánuðum

Stærsta verkefnið fram undan er viðhald í göngunum, sem er nauðsynlegt að sinna. „Ef maður á að reyna að finna eitthvað jákvætt við þetta þá fáum við núna mikinn tíma til að sinna viðhaldi, sem hingað til hefur verið sinnt á nóttunni, sem er erfitt. En nú fáum við tækifæri til að gera allt sem við viljum gera og sinna viðhaldi næstu 18 mánaða á örfáum mánuði,“ segir Sigurður. Viðhaldið felst fyrst og fremst í að laga lýsingu og fræsa ísinn innan í göngunum. Hann býst við því að í sumarlok verði göngin í sínu besta ástandi frá því að göngin voru opnuð árið 2015. 

Göngin hafa verið lokuð frá 21. mars en stefnt er á að bjóða upp á ferðir einhverja daga í sumar, einkum um helgar, og undirbýr fyrirtækið nú markaðsherferð sem miðuð verður að Íslendingum. Hátt í 60 þúsund manns heim­sóttu ís­göng­in í fyrra en Sigurður segir að ekki sé hægt að gera neinar áætlanir um fjölda heimsókna í ár. 

Göngin voru opnuð fyrir fimm árum og eru stærstu manngerðu …
Göngin voru opnuð fyrir fimm árum og eru stærstu manngerðu ísgöng í heimi. Ljósmynd/Aðsend

Markmiðið að reyna að bjarga öllum störfum

„Við höfum siglt lygnan sjó í rekstrinum þrátt fyrir fækkun ferðamanna en núna snýst þetta bara um að bíða. Það er yfirlýst markmið að reyna að bjarga sem flestum störfum ef ekki öllum. En núna veit enginn neitt. Vonandi verða komnir einhverjir ferðamenn í haust eða um áramótin en ef það er næsta sumar er það enn ein sviðsmyndin sem er allt öðruvísi.“

Eina sem er fullvíst að sögn Sigurðar er að göngunum verður alltaf viðhaldið. „Starfsemin er þess eðlis að það þarf alltaf að vera með lágmarksmannskap til að halda þessu við, það er ekki hægt að slökkva ljósin og fara. Við höfum fjármagn í að vera með langa bið en biðin getur ekki verið endalaus. En ég trúi því að eftir áramót verði komnir einhverjir ferðamenn.“



mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK