Félag Buffets tapaði 7.300 milljörðum

Warren Buffett er enn í fullu fjöri en hann verður …
Warren Buffett er enn í fullu fjöri en hann verður níræður í ágúst. AFP

Berkshire Hathaway, eignarhaldsfélag bandaríska auðkýfingsins Warren Buffett, hefur ekki farið varhluta af kórónuveiruheimsfaraldrinum, en félagið greindi frá því í dag að það hefði tapað hátt í 50 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi. Það jafngildir um 7.300 milljörðum kr. 

Félagið, sem er með höfuðstöðvar í borginni Omaha í Nebraska, segir að um tímabundið bakslag sé að ræða. Enn ríki þó óvissa og erfitt sé að spá fyrir um það hvenær fyrirtæki í eigu Berkshire Hathaway verði aftur komin í eðlilegan rekstur. Þá sé sömuleiðis erfitt að spá fyrir um hegðun neytenda, það er að segja hvenær þeir muni aftur kaupa vörur og þjónustu í sama mæli og fyrir faraldurinn. 

Buffett, sem þykir einn slyngasti fjárfestir heims, er einn af ríkustu mönnum veraldar. Auðæfi hans eru metin á um 72 milljarða dala, og situr hann í fjórða sæti yfir auðugustu menn heims, að því er fram kemur í samantekt viðskiptablaðsins Forbes. 

Árlegur fundur Berkshire Hathaway í Omaha er einn af hápunktum ársins hjá fjárfestum og verið kallað „Woodstock kapítalistanna“, þar sem vísað er í fræga tónlistarhátíð sem fór fram í bænum Bethel í New York-ríki árið 1969. Þar sem sóttvarnir og samkomubönn eru í enn í gildi þá verður fundurinn haldinn á netinu þetta árið, en hann hefst kl. 20:45 að íslenskum tíma í kvöld.  

Hér má fylgjast með fundinum í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK