Festi hættir í hlutabótaleiðinni

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi. Ljósmynd/Aðsend

Festi hf. er hætt að nýta sér hlutabótaleið stjórnvalda til að greiða starfsfólki sínu laun og breytingin tekur gildi í dag. Hingað til hefur kostnaður fyrir ríkissjóð numið 45 milljónum vegna greiðslna til Festar en hann verður ekki meiri úr þessu.

Eggert Þór Kristófersson segir ákvörðunina á sínum tíma hafa verið tekna í góðum hug. „Það hvarflaði ekki að okkur að hún myndi orka tvímælis enda fór fyrirtækið í einu og öllu að tilmælum stjórnvalda. Festi vill árétta að síðan hlutabótaleiðin var kynnt sem úrræði stjórnvalda að þá hefur félagið ekki greitt út arð eða keypt eigin hlutabréf,“ segir Eggert í tilkynningu um málið. 

„Það eru einkennilegir tímar sem við lifum núna og margt óvænt sem kemur upp í daglegum rekstri sem við lærum af. Festi hefur ákveðið frá og með deginum í dag að nýta ekki hlutabótaleiðina,“ segir Eggert þá.

Harðlega gagnrýnd 

Festi rekur meðal annars N1, Elko og Krónuna og Eggert forstjóri sagði í viðtali í gær að félagið stæði „mjög vel.“ Þrátt fyrir gott ástand, hafi það ákveðið að nýta sér hlutabótaleiðina, enda hafi það haft heimild til þess. Ætlunin hafi verið að koma í veg fyrir uppsagnir.

Stór og stöndug félög eins og Festi hafa verið gagnrýnd, meðal annars af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar, fyrir að nýta sér úrræði sem eru ætluð þeim sem standa mjög illa vegna kórónuveirufaraldursins. 

Í tilkynningunni segir að félagið hafi orðið fyrir tekjutapi á ákveðnum sviðum. „Verslanir ELKO í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem og nokkrar þjónustustöðvar N1 urðu fyrir algjöru eða miklu tekjutapi og verulegum takmörkunum á starfsemi vegna áhrifa af COVID-19 og samkomubanns stjórnvalda.  Hlutabótaleiðin var nýtt að hvatningu stjórnvalda í stað þess að grípa til uppsagna og vernda þannig  ráðningarsamband við starfsfólk, enda er okkur umhugað um að vernda störf og halda því góða starfsfólki sem hjá okkur starfar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK