Vænta sama gengis krónu næsta árið

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Verðbólguvæntingar markaðsaðila eru áfram við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og hafa þær lítið breyst frá síðustu könnun bankans í janúar.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar bankans um væntingar markaðsaðila dagana fjórða til sjötta maí.

Leitað var til 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 27 aðilum og var svarhlutfallið því 96%.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 2,2% á öðrum fjórðungi þessa árs og 2,4% bæði á þriðja og fjórða ársfjórðungi. Verðbólguvæntingar til eins, tveggja, fimm og tíu ára eru 2,5% og nánast óbreyttar frá síðustu könnun, að því er segir í tilkynningu.

Vænta ekki frekari gengislækkunar á næstunni

Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti ekki frekari lækkunar á gengi krónunnar á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 160 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans lækki um 0,5 prósentur í 1,25% á öðrum fjórðungi þessa árs. Þá vænta þeir þess að meginvextir bankans lækki um 0,25 prósentur til viðbótar fyrir lok ársins en hækki aftur á næsta ári og verði aftur orðnir 1,25% á öðrum fjórðungi næsta árs. Þeir vænta þess jafnframt að meginvextir bankans verði 1,75% eftir tvö ár. Þetta eru lægri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í janúar sl., áður en COVID-19-farsóttin dreifðist um allan heim, en þá væntu þeir þess að vextir yrðu 2,75% á næstu tveimur árum.

Meirihluti svarenda telur að taumhald peningastefnunnar sé of þétt um þessar mundir, líkt og í síðustu fjórum könnunum. Hlutfall þeirra sem telja taumhaldið of þétt hækkar milli kannana og var 70% samanborið við 61% í síðustu könnun. Þá fjölgar þeim sem telja taumhaldið of laust úr 4% í 11%. Á móti fækkar þeim sem telja taumhaldið hæfilegt úr 35% í 19%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK